151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta hafa verið mjög góðar umræður, finnst mér. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni þessa máls fyrir tillegg hans og útskýringar. Ég er einn af flutningsmönnum frumvarpsins og styð það. En umræðurnar hafa þróast þannig að kannski hefur minnstur tíminn farið í að ræða efnislega um þær breytingar. Er það vonandi bara til marks um að nefndarmönnum hafi tekist að þræða einhvern meðalveg þar sem allir voru sæmilega sáttir. Þó að þetta sé allt saman til bóta þá eru þetta ekki mjög stórvægilegar eða miklar breytingar en ég vil alls ekki gera lítið úr því að við erum samt að ráðast í þær. Umræðurnar hafa meira farið í það að ræða hvort hægt væri að gera enn betur og hvað þyrfti til að það væri hægt. Mig langaði aðeins til að blanda mér í þá umræðu vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt viðfangsefni fyrir okkur öll sameiginlega að reyna að finna út úr því hvernig við getum fært störf okkar hér á Alþingi, ég ætla að leyfa mér að segja til nútímahorfs og ég ætla líka að leyfa mér að segja í þá átt að þingið vinni skilvirkar. Ég held að mikið rúm sé fyrir það og án þess að það komi niður á hinu pólitíska starfi eða því að þingið starfi þannig að sómi sé að.

Mig langar rétt að nefna að fyrir rúmu ári, áður en við kynntumst kórónuveirunni, þá höfðum við verið að gera ýmislegt, bæði í þinginu og víða um samfélagið, sem okkur hefði aldrei dottið í hug að gera og hefðum talið óhugsandi og hefðum fundið því allt til foráttu. Síðan hefur komið í ljós að heimurinn snýst og að sumu leyti snýst hann bara ágætlega. Ég held að það geti vel átt við um störf þingsins en auðvitað er mjög mikilvægt að þau séu í góðu horfi. Þá held ég að oft sé mjög gott að byrja á því að ímynda sér að við værum að leggja af stað og stofna þing og ætluðum að reyna að láta það starfa þannig að sómi væri að, að tíminn væri vel nýttur, það væri samvinna um mál og framgang mála, um það hvernig nefndir störfuðu, hve langan tíma við ætluðum okkur í hvert og eitt mál o.s.frv., en ekki að byrja eiginlega neðan frá að reyna að horfa á nákvæmlega það sem fyrir er og reyna að lappa upp á það. Ég held að þetta skipti gríðarlega miklu máli.

Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að það sé algerlega hægt að koma fram öllum þeim sjónarmiðum sem þurfa að koma fram í störfum Alþingis með miklu skilvirkari og straumlínulagaðri hætti en við gerum núna. Auðvitað þurfum við þá að sameinast um að vilja gera það og hætta að hugsa — og nú er auðvitað, eins og margir hafa bent á hér, kannski besti tíminn alltaf rétt þegar dregur að kosningum því að þá vita menn ekki hvorum megin þeir eru. Ég hef ekki hitt neinn þingmann sem er í sjálfu sér ánægður með hvernig fyrirkomulag ræðutíma er háttað, að hægt sé að tala sólarhringum saman um mál í þeim eina tilgangi að knýja fram einhverja tiltekna lausn, helst að taka viðkomandi mál út af dagskrá. Allir eru sammála um að það fyrirkomulag okkur ekki til sóma. Síðan þegar á reynir og á að fara að ræða um að breyta þessu færast menn alltaf undan. Í bakhöfðinu hugsa menn einhvern veginn alltaf sem svo: Ég held að það væri nú samt rosalega gott að geta gripið til þessa ráðs við vissar aðstæður. Ég held að þennan hugsunarhátt verðum við að reyna að skilja eftir og reyna að hugsa þetta öðruvísi.

Það hefur líka verið komið inn á það hér í ræðum að þetta snúist um valdajafnvægi og hvaða tækifæri stjórnmálamenn, minni hlutinn, hafi til að hafa áhrif á framgang mála. Hér hefur tíðkast talsvert meirihlutaræði og þrautaráð stjórnarandstöðu hvers tíma hefur verið að grípa til þess óyndisúrræðis að tefja framgang mála með markvissum hætti. Og allir vita alltaf hvernig það endar, það þarf alltaf að semja að lokum. Það fer í gang viss leikþáttur hverju sinni þar sem menn saka hver annan á víxl um óbilgirni og að menn séu að beita óvönduðum meðulum o.s.frv. En alltaf endar þetta nú einhvern veginn og svo heldur hringekjan áfram næst þegar kemur að því að hætta þarf störfum á þinginu. Út úr þessu verðum við að komast og það verðum við að gera með því að setja upp einhver tól sem veita minni hlutanum einhver úrræði til þess að geta haft áhrif og um leið að meiri hluti hvers tíma viðurkenni að það beri að veita minni hlutanum eitthvert svigrúm.

Auðvitað er það þannig og undan því verður ekkert vikist að þegar það er meiri hluti í þinginu og ríkisstjórn þá stjórnar sá meiri hluti. Ég er ekki talsmaður þess að við eigum að breyta þingstörfunum þannig að samkomulag þurfi að vera um alla hluti og að stjórnarandstaða á hverjum tíma eigi að geta ráðskast með ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eða meirihlutavilja þingsins. Nei, það gengur auðvitað ekki. Við erum með það fyrirkomulag að meiri hlutinn ræður en við vitum líka að það getur verið mjög slæmt ef meiri hlutinn, ég vil ekki nota orðið misnotar en beitir því valdi sínu mjög ótæpilega og hunsar sjónarmið annarra. Ég er að sjálfsögðu bara að tala almennt, ég er ekki að tala um þau stjórnvöld sem nú sitja frekar en einhver önnur og allt eins það sem til framtíðar horfir. Ég held að tækifæri séu til að breyta þessu.

Það er hægt að koma öllum sjónarmiðum á framfæri. Það er hægt að skipuleggja tímann betur. Það er hægt að ákveða fyrir fram, auðvitað með samkomulagi, hvernig ræðutíminn á að vera, eins og t.d. við þetta frumvarp sem við erum með núna, ekkert hefur verið talað um það og enginn sagt neitt um hversu lengi á að tala um þetta frumvarp. Við gætum þess vegna tekið upp á því að tala hér í marga klukkutíma í viðbót, í marga daga ef út í það er farið. En það þjónar ekki neinum tilgangi öðrum en þeim að lengja umræðuna. Ef það hefði verið fyrir fram ákveðið að alveg myndi duga fyrir framsögumanninn að tala í korter til að fara yfir helstu atriðin, síðan dygðu hverjum ræðumanni fyrir sig fimm mínútur til að tala og heildarræðutíminn væri klukkutími og korter, eitthvað svoleiðis, þá held ég að við værum algerlega með jafn góða 1. umr. um málið eftir slíka meðferð. Það gerum við ekki. Við gerum það mjög sjaldan. En ég held að það væri mjög til bóta að fara svona leiðir. Ég held að ég geti alveg lýst því yfir, a.m.k. fyrir hönd míns flokks, að við erum meira en reiðubúin til að taka upp alvörusamtal um þessi mál, um að breyta þessu. Ég held að okkur sé nauðsynlegt að gera það fyrir svo margra hluta sakir. Ég held að eins og sagt hefur verið sé vilji allt sem þarf.

Ég held nefnilega að við viljum flestöll breyta þessu. Við viljum öll breyta þessu. Við sjáum öll að þetta er ekki í nógu góðu horfi. Það er hægt að gera þetta miklu betur, bæði fyrir störf þingsins og ekki síður bara fyrir þegna þessa lands, að þeir geti áttað sig betur á því nákvæmlega hvað fer fram hér og um hvað meginatriði mála snúast. Það fer náttúrlega svolítið að dofna yfir því að menn geti haldið fókus um hvað álitamálin snúast þegar menn tala dögum saman um málin eða fleiri, fleiri klukkutíma. Stundum hefur maður á tilfinningunni að við séum meira að tala fyrir þingtíðindin heldur en fyrir fólkið. Ég held að þetta þurfi eiginlega að snúa öfugt. Ég held að við þurfum að vera með þannig þing að borgararnir geti fylgst með og áttað sig á því hvað um er að vera en ekki að verið sé að tala fyrir þingtíðindin. Þó að vissulega sé gaman að eiga mörg orð í þingtíðindum er það kannski ekki aðalkeppikeflið.

Til að fara nú að hætta þessu held ég að við höfum sjón og tækifæri til að gera lagfæringar. Ég held að við viljum það öll. Við þurfum bara einhvern veginn að koma okkur í þær stellingar að sleppa haldi að mörgu leyti af hinum gamla tíma. Ég vil samt enda á því að segja, svo að menn misskilji mig ekki, að það er náttúrlega langur vegur frá því að hér sé allt í kaldakoli. Þingið hefur þrátt fyrir allt skilað miklu og drjúgu verki. Það er alveg rétt. Ég held bara að hægt sé að gera þetta svo miklu betur fyrir okkur sem störfum á þinginu, bæði þingmenn og starfsfólk þingsins, en ekki síður fyrir þá sem við erum þó að baksa við að setja lög fyrir í þessu landi. Ég held að það væri til bóta. Ég held að við ættum t.d. meira að fara út í að auka hið pólitíska samtal, sjálfsprottið samtal hér í þingsalnum, auka það að ráðherrar sitji fyrir svörum, að þetta sé miklu styttra og snarpara. Við eigum að færa inn í nefndirnar enn meira samtal um málin en ekki síður samtal um það hvernig nefndirnar ætlast til að fjallað sé um málin í þingsal. Eins og við vitum öll fer starfið fram í nefndunum og ég held að mjög mikilvægt sé ef nefndirnar geta komið sér meira saman um að leggja til hvernig meðferð málsins er síðan háttað í þingsal þegar búið er að móta breytingartillögur og nefndarálit og þess háttar. Ég held að tækifærin séu mýmörg og við ættum bara að reyna að einhenda okkur í þetta. Ég trúi ekki öðru en við getum breytt þessu og ég held að við verðum að breyta þessu.