151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[13:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það birtir yfir Bandaríkjunum við fráhvarf Trumps forseta og með nýjum forseta og nýrri ríkisstjórn og þá væntanlega líka yfir samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Trump-stjórnin tók nánast eingöngu rangar ákvarðanir í utanríkismálum og norðurslóðamálum og ég ætla að leggja áherslu á þau stóru mál með nokkrum orðum. Ég ætla að fagna því að það á að bjóða Antony Blinken, nýjum utanríkisráðherra, til fundar hér á landi í maí og legg til að John Kerry komi líka þar. Þátttaka þessara manna væri þá staðfesting þess að bandarísk stjórnvöld vilja vinda ofan af mistökunum og röngum málflutningi Pompeos utanríkisráðherra í Rovaniemi árið 2020 þar sem hann kom í veg fyrir sameiginlega yfirlýsingu norðurslóðaríkjanna. Við eigum að hvetja til þess að Bandaríkin endurmeti og breyti afstöðu til norðurslóðamála, a.m.k. að hluta til, og sérlega afstöðu til loftslagsmálanna í því sambandi.

Þá ber auðvitað að fagna endurkomu þeirra að Parísarsamkomulaginu, en það er jú alkunna að norðurslóðamálin eru að verða æ mikilvægari með hverju árinu sem líður. Við eigum að hvetja til samvinnu Bandaríkjanna og Íslands í málefnum hafsins og hafsbotnsins á grunni hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og sjálfbærni, og hvetja til áframhaldandi lágspennu á norðurslóðum. Og þar sem ekki er hægt að fela varnar- og öryggismálin væri æskilegt að við fyndum leiðir til þess að koma á viðræðum allra átta norðurslóðaríkjanna og fleiri, ekki á vettvangi Norðurskautsráðsins eða þingmannaráðstefnu norðurslóða, heldur á öðrum og nýjum vettvangi í átt að friði og afvopnun, jafnt á norðurslóðum þá sem á heimsvísu.