151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:11]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið gríðarlega jákvætt þegar nýr forseti tók við völdum í Bandaríkjunum, og þar með hafi strax orðið stefnubreyting varðandi þátttöku í ýmiss konar alþjóðasamstarfi, til að mynda með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og að Bandaríkin komi aftur inn í Parísarsamkomulagið. Það er nákvæmlega á þeim vettvangi sem þjóðir heims þurfa að takast á við aðsteðjandi ógnir og vandamál samtíma okkar. Er þar auðvitað nærtækast að benda á loftslagsvána og benda á heilbrigðisógnina sem kórónuveirufaraldurinn hefur svo sannarlega sýnt okkur að er alvöru vá sem steðjar að öllu mannkyni.

Ég set hins vegar spurningarmerki við það hversu miklar áherslubreytingar verði í raun þegar kemur að því sem flokkað hefur verið sem öryggis- og varnarmál í hinum, kannski því miður, klassíska skilningi sem lagður hefur verið í þessi orð, þ.e. öryggis- og varnarmál á hernaðarlega sviðinu. Það held ég að eigi alveg eftir að koma í ljós. Og vegna þess að minnst var á tvíhliða öryggissamstarf í gegnum NATO þá teljum við í Vinstri grænum að þar sé um algjörlega rangar áherslur að ræða sem tryggi ekki raunverulegt öryggi, hvorki Íslands né umheimsins, og því eigi að segja upp varnarsamningnum og við eigum að segja okkur úr NATO. En á sama tíma eigum við að sjálfsögðu að fagna öllu samstarfi þar sem þjóðir heimsins koma saman til að ræða hin raunverulegu vandamál og þar er frábært að Bandaríkin séu komin inn.