151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

framfærsluviðmið og rekstrarkostnaður heimila.

[13:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Það er eiginlega tvennt sem mig langar til að spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra um. Í fyrsta lagi: Hvernig stendur á því að fyrir skemmstu, eða fyrir tveimur árum, lækkaði ráðuneyti félags- og barnamála viðmiðið til framfærslu fjölskyldunnar? Það var viðmið sem var langtum hærra en lágmarkslaun í landinu. Það var náttúrlega einsýnt að miðað við framfærsluviðmiðið sem ráðuneytið gaf út lifði enginn Íslendingur á þeim lágmarkslaunum sem þeim var skammtað. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra tali pínulítið um það. Í öðru lagi spyr ég um eitt sem ég átta mig ekki á: Veit hæstv. barna- og félagsmálaráðherra hvaða útgjaldaliður er langstærstur í rekstrarkostnaði heimilisins? Og ef svo er, sem ég býst nú við að hann viti, þá spyr ég: Hvers vegna í veröldinni er kostnaður fjölskyldunnar við húsnæði ekki tekinn með inn í framfærsluviðmið ráðuneytisins?