151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

framfærsluviðmið og rekstrarkostnaður heimila.

[13:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég áttaði mig engan veginn á svarinu nema hvað lýtur að því að hann hefur náttúrlega engin völd í ráðuneyti sínu, bara akkúrat engin. Það eru bara einhverjir aðilar úti í bæ sem núna eru í einhverri nefnd sem væntanlega verður ekki búin að skila einu eða neinu þegar hæstv. ráðherra fer úr ráðuneyti sínu.

En svona til gamans, eða ekki til gamans, til grafalvarleika, ætla ég að benda á að grunnviðmiðið núna, grunnviðmiðið, hugsið ykkur, fyrir tveggja eða fjögurra manna fjölskyldu, hjón með bíl og tvö börn — og við skulum taka eftir því, sem hvergi eiga heima því að hvorki er gert ráð fyrir að þau séu á leigumarkaði né að greiða af fasteign — að grunnviðmið þessarar fjölskyldu eru 233.165 kr. þó að dæmigert sé verið að tala um að þau þurfi aldrei undir 450.000 kr. til að geta framfleytt sér, fyrir utan húsnæði. Þá spyr ég núna í beinu framhaldi af þessu: Nú mælist verðbólgan hér 4,3%. Ég vænti þess að þeim sé öllum í lófa lagið, (Forseti hringir.) þessum reikningssérfræðingum úti í allri stjórnsýslunni, að setja þá þessi 4,3% beinustu leið (Forseti hringir.) inn í að hækka þessi viðmið, grunnviðmið framfærslu fjölskyldunnar.