151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

erlendar lántökur ríkissjóðs.

[13:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta var merkileg yfirlýsing af hálfu forsætisráðherra. Hún tekur ekki fram hina ótrúlegu gengisáhættu sem fylgir því að taka erlend lán. Hvenær höfum við Íslendingar upplifað tímabil í okkar fjármálasögu, peningamálasögu, án áhættu í tengslum við krónuna? Hvenær? Það hefur aldrei í sögu íslensku þjóðarinnar komið það tímabil sem við höfum ekki þurft að borga með því að vera með okkar litlu krónu. Það er mikil áhætta, í raun svívirðileg áhætta að mínu mati, sem íslenska ríkisstjórnin er tekur með því að fara í þessa massífu erlendu lántöku. Hvað þýðir þetta fyrir okkur? Þetta er m.a. leið ríkisstjórnarinnar til að halda genginu uppi. Við sjáum það ekki fyrir en það er mjög líklegt. Hvað þýðir það? Það mun hugsanlega hafa í för með sér verulegar skattahækkanir, beinar og óbeinar fyrir ríkissjóð. Ég hef verulegar áhyggjur af þessari kúvendingu, að mínu mati, af því að það var ítrekað sagt að við ætluðum að fjármagna (Forseti hringir.) þetta innan okkar krónuhagkerfis en það er ekki gert. Við erum að taka áhættuna af íslensku krónunni, við erum að fara út í erlenda lántöku og með því erum við (Forseti hringir.) hugsanlega að veðsetja velferðina langt fram í tímann og það er hættumerki.