151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þá skýrslu sem hún gaf hér í upphafi umræðunnar en vil ítreka beiðni mína um að við hér í þinginu fáum einhvers konar punkta að morgni þess dags sem skýrsla er gefin svo að við getum undirbúið okkur örlítið betur fyrir umræðuna. Ég held að hún verði bara ríkari fyrir vikið. En gott og vel.

Ég tel mjög mikilvægt að við höfum strangar reglur á landamærum. Það hefur sýnt sig að það hefur gefist vel og er mun vænlegra til árangurs að hafa strangari reglur á landamærum en reyna að opna samfélagið eins og hægt er hér innan lands. Ég er aðeins hugsi varðandi PCR-prófið sem tilkynnt var um í morgun, sem verður að vera nýrra en 72 klukkustunda gamalt. Þetta er vissulega notað í mörgum ríkjum, t.d. í Danmörku, þar má það meira að segja ekki vera eldra en 24 klukkustunda gamalt, til að farþegar geti jafnvel bara millilent á Kastrup-flugvelli. En gott og vel.

Þetta próf mun gilda fyrir alla, líka Íslendinga. Þá langar mig aðeins að velta upp þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvernig þetta muni samræmast 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins né verði honum vísað úr landi. Ef íslenskur ríkisborgari er ekki með þetta próf, hvernig ætlum við að haga málum á landamærum?

Ég ítreka að ég tel mikilvægt að hafa stífar reglur á landamærum, en ég tel líka mikilvægt að við pössum upp á að þær reglur sem við setjum séu í samræmi við stjórnarskrá.