151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tók líka eftir þessum krökkum og þau voru algerlega frábær. Ég held að það sé óendanlega mikilvægt fyrir stjórnvöld á öllum tímum að búa við aðhald og snerpu frá ungu fólki sem gerir kröfur og ber í borðið. Það sem við höfum gert — af því að ég sem heilbrigðisráðherra hef haft mjög vakandi auga fyrir þeim áskorunum er varða geðheilsu í faraldrinum — er annars vegar að byggja kerfið upp og styrkja það skref fyrir skref á öllum stigum, eins og við ræddum hér fyrr í dag, og hins vegar höfum við lagt til sérstakar 540 milljónir á árinu 2020 og aftur á þessu ári bara í geðheilbrigðisþjónustu til að bæta hana. En til lengri tíma þá þarf geðrækt að vera partur af allri skólagöngu, allt frá leikskólastigi og upp úr. Við eigum áætlunina og innleiðing er hafin.