151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ef þetta er ekki rétt tilefni til þá veit ég ekki hvað, að þakka öllu þessu fólki fyrir úthaldið og þolgæði en líka fyrir sveigjanleika og fyrir að vera lausnamiðað. Íþróttafólkið í að halda áfram leikgleðinni t.d. og að halda því áfram sem þau bjuggu mörg hver við í mjög langan tíma, takmarkaða möguleika á að æfa sig, en fara samt á fullu út í það þegar opnanirnar koma með bros á vör. Sviðslistirnar, að fylgjast með leikurunum á sviði, tónlistarfólkinu o.s.frv. fyrir hálftómum sölum að taka við klappinu sem kemur svoleiðis frá hjartanu þó að það glymji ekki eins vel og í troðfullu húsi. Þetta erum við öll að upplifa. Veitingahúsafólkið sem segir: Farið hérna megin og farið þarna megin og passaðu þig hér, og finna leiðir til þess að veita okkur sína frábæru þjónustu. Þetta er auðvitað líka það sem gerir lífið í samfélaginu, við finnum að þetta er líka samstaða, að við séum öll til í þetta.

Hv. þingmaður er sammála mér um að það sé skynsamlegt að herða reglur á landamærum. Ég held að það sé afar skynsamlegt einmitt núna að gera það vegna þess hversu mikil verðmæti felast í því svigrúmi sem við höfum innan lands. Við getum aukið það og við eigum að gera það. Ég hef átt samtal við sóttvarnalækni í dag varðandi tilslakanir innan lands og hann segir mér að tillögur þess efnis séu í smíðum. Við megum vænta þess að sjá eitthvað slíkt alveg á næstu dögum og það mun snúast um þá starfsemi sem hv. þingmaður nefnir.