151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það liggur í hlutarins eðli að áður en reglugerðir eru settar á grundvelli laga, eins og hv. þingmaður veit auðvitað, er farið í slíka könnun á lögmæti, bæði með hliðsjón af gildandi lögum en líka stjórnarskrá áður en ráðherrann undirritar reglugerðina. Reglugerðin eins og hún er sett fram í drögum á ríkisstjórnarfundi í morgun gerir bara ráð fyrir skyldu einstaklingsins og þar gerum við ráð fyrir því að þetta sé síðan skoðað á landamærunum. Við erum enn þá ekki með neinar skyldur á flugrekendur. Það er ekki enn þá komið. Við erum ekki búin að koma slíku í kring. En ég tek undir það með hv. þingmanni hversu mikilvægt það er þegar við erum með einhverju móti að stíga nálægt því sem gæti talist friðhelgi einkalífs eða stöðu hvers og eins í þessu tilliti frammi fyrir stjórnvöldum að gætt sé mjög vel að umræddum sjónarmiðum.