151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra lokaræðuna. Það eru nokkrar spurningar sem komu upp á meðan hæstv. ráðherra var hér í pontu en fyrst verð ég auðvitað að koma inn á þá dellu, sem hæstv. ráðherra ýjar hér reglulega að, að Miðflokkurinn og þingmenn Miðflokksins hafi efasemdir um að það sé gott að innflytjendur læri íslensku. Það er eins og að vera fastur í leikhúsi fáránleikans að hlusta á þetta rugl í hæstv. ráðherra. En látum það nú liggja á milli hluta.

Hæstv. ráðherra kom inn á það í upphafi ræðu sinnar en mig langaði að spyrja með hvaða hætti dregið verði úr stuðningi við kvótaflóttamenn með frumvarpinu. Ég finn því hvergi stað í frumvarpinu og því væri áhugavert ef hæstv. ráðherra vildi útskýra það fyrir mér. Hæstv. ráðherra kom jafnframt inn á það að málið, eins og það lægi fyrir, slyppi innan ramma félagsmálaráðuneytisins og þar á hæstv. ráðherra væntanlega við fjárhagsramma félagsmálaráðuneytisins. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það séu einhverjir óvissuþættir í þessu máli eins og það horfir við honum til viðbótar við þær 23,7 milljónir sem tilgreindar eru í frumvarpinu. Í þriðja lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann meti það sem svo að þau réttindi sem hælisleitendur njóta hafi áhrif á fjölda umsókna eða hvort fjöldi umsókna stýrist af einhverju allt öðru.