151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:11]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ástæða sé til að hrósa hæstv. ráðherra fyrir bjartsýnina. Það er betra að vera bjartsýnn en vonlítill og vonandi gengur þetta eftir. Ástæðan fyrir því að ég tel það vera svona mikilvægt, og hæstv. ráðherra hefur áður átt við mig orðastað um sama mál, er að ég óttast um verkefnið, notendastýrða persónulega aðstoð, til frambúðar ef við náum ekki að leysa úr þeim vandræðum sem þessir starfsmenn hafa sannarlega átt í. Það er ekki nógu gott. Ég átta mig á því sem hæstv. ráðherra nefndi áðan, það er ekki um eiginlegt brot á löggjöf að ræða, auðvitað ekki. Ég held alls ekki að það sé þannig enda hef ég samþykkt þessi bráðabirgðaákvæði ítrekað hér í þinginu, en engu að síður er staðan ekki eins og við vildum hafa hana.

Mig langar í seinna andsvari að inna ráðherrann eftir því hvort það hafi komið til tals, vegna þess hvað þetta hefur gengið hægt, að setja málið hreinlega í nokkurs konar gerð, fela það hreinlega gerðardómi eða einhverju slíku, og þá til vara hvort einhvern tímann í ferlinu hafi komið til tals, til að reyna að þrýsta á aðila, að ákveða hreinlega að setja afsalaða réttinn á einhvers konar biðreikning fyrir þessa starfsmenn, til að mæta væntum réttindum þeirra, því við getum ekki beinlínis talað um réttindi þegar lög heimila annað.