151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alþjóðaþingmannasambandið 2020.

494. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. ÍAÞ (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2020. Skýrslan liggur frammi á þskj. 825. Þar er starf nefndarinnar rakið ágætlega, lið fyrir lið, þeir fundir sem voru haldnir. Ég ætla ekki að rekja skýrsluna frá orði til orðs heldur bara vísa í hana.

Alþjóðaþingmannasambandið, svo að maður rifji það upp, er samband 179 þjóðþinga en aukaaðild að því eiga síðan 13 svæðisbundin þingmannasamtök. Ísland er sem sagt eitt þeirra þjóðþinga. Ísland hefur um árabil átt aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu en áhersla sambandsins er á mannréttindi og markmið sambandsins er að standa vörð um þau sem einn af grundvallarþáttum lýðræðis og þingræðis. Þá er það sérstakt markmið Alþjóðaþingmannasambandsins að styðja þjóðþing og aðstoða við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra og ekki er vanþörf á í tilfelli margra aðildarríkjanna sem sum hver eru einmitt ekki lýðræðislega kjörin.

Í grófum dráttum stendur Alþjóðaþingmannasambandið fyrir tveimur þingfundum árlega. Einum að vori sem haldinn er í einu af aðildarríkjum sambandsins og svo er þing að hausti sem ávallt hefur verið haldið í Genf. Eins og á við um annað alþjóðastarf Alþingis og annarra þjóðþinga í heiminum hefur starfið markast af heimsfaraldrinum en þó ekki orðið fundarfall heldur hafa menn haldið langflestum fundunum til streitu með fjarfundabúnaði.

Það er þannig af hálfu Íslands að Íslandsdeildin svokölluð á aðild að ráði Alþjóðaþingmannasambandsins en þar sitja þrír fulltrúar frá hverri landsdeild og það sama á auðvitað við um Ísland. Auk mín skipa Íslandsdeildina hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, sem hefur verið varaformaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Varamenn hafa verið hv. þingmenn Bergþór Ólason, Helga Vala Helgadóttir og Jón Gunnarsson.

Ég ætla rétt að stikla á stóru varðandi þá fundi sem hafa verið haldnir. Alþjóðaþingmannasambandið heldur sjálft tvo fundi á ári í þinginu. Þess utan hafa landsvæði haldið sig saman og í raun kannski myndað litlar undirstofnanir og Ísland að sjálfsögðu skipað sér í hóp með norrænum þjóðþingum. Haldnir voru tveir norrænir samráðsfundir á síðasta ári, eins og hefur verið árlega, til að fara yfir málefni komandi þings á hinum stóra vettvangi. Oft hefur þá verið um það að ræða að norrænu ríkin hafa samræmt afstöðu sína til tiltekinna mála. Á síðasta ári, árið 2020, fór Danmörk með formennsku á þessum norrænu samráðsfundum. En það voru sem sagt haldnir tveir svona fundir og þeir voru haldnir rafrænt.

Ég get svo sem reifað það hér og sagt frá því að þessir norrænu samráðsfundir, þeir sem ég hef setið, hafa kannski hverfst einum of mikið um starfið sem fram undan er í Alþjóðaþingmannasambandinu og svona tæknileg atriði. Ég lagði áherslu á það, á þeim fundum sem ég hef sótt, að það væri sérstaklega tekið til umræðu og vettvangurinn sérstaklega notaður, þessi norræni vettvangur, til að ræða heimsfaraldurinn sérstaklega og hvernig þjóðþingin í þessum löndum væru að takast á við faraldurinn með hliðsjón af mannréttindum og lýðræðislegum réttindum og skyldum sem þingmenn hafa í okkar ágætu lýðræðisríkjum. Fyrsti slíki fundurinn eftir heimsfaraldurinn átti sér stað 8. júní þar sem þetta var reifað. Seinni fundurinn, þessi norræni, var haldinn 1. september og markaði umræðuna svolítið. Það er eins og oft vill verða í þessu alþjóðasamstarfi að það myndast einhvern veginn hver kápan yfir aðra. Auk þessa norræna samstarfs sem við Íslendingar eigum þátt í hefur Ísland líka skipað sér í ríkjasamstarf sem kallast tólf plús og eru Evrópuríkin öll auk Kanada og nokkurra annarra, Ísraels og einhverra annarra ríkja; ríki sem líta þannig á að þau skipi sér saman með hliðsjón af menningu og lýðræðislegri þróun. Fyrir þessum tólf plús hópi fór um nokkurt skeið Portúgali nokkur sem hugðist gefa kost á sér sem forseti Alþjóðaþingmannasambandsins.

Á slíkum norrænum samráðsfundi sem haldinn var í september ræddu norrænu ríkin hvort þau ættu að sammælast um að styðja einn frambjóðanda umfram annan. Það eru svona óformlegar og óskrifaðar reglur í þessu alþjóðasamstarfi að forsetaembættið hleypur á milli landsvæða og það var komið að þessu landsvæði sem tólf plús hópurinn, Evrópa Kanada og Ísrael, hafa með sér. Menn kjósa eins og samviska þeirra býður þeim, en það varð úr að formaður tólf plús hópsins, Duarte Pacheco, gaf kost á sér og var frambjóðandi hópsins til forseta Alþjóðaþingmannasambandsins. Það voru haldnir nokkrir fundir til að ræða þessi mál tæknilega fram og til baka. Alþjóðaþingmannasambandið tók snemma þá ákvörðun að halda ekki nema þetta stóra þing, nánast aðalfund, eða ráðsfund eins og það kallast, Alþjóðaþingmannasambandsins 1.–4. nóvember 2020. Tekin var ákvörðun um að halda hann rafrænt. Í því skyni, þar sem fram átti að fara kjör nýs forseta, var fjárfest, miðað við umræðurnar sem fóru fram um þau mál öll saman, fyrir háar fjárhæðir í rafrænu kosningakerfi sem var margprófað og staðfest áður en til kjörsins kom. Var það í sjálfu sér til fyrirmyndar hvernig á því var haldið og kannski til eftirbreytni fyrir önnur alþjóðasamtök á þessu sviði að nýta sér með þessum hætti fjarfundabúnað, og þegar þarf að greiða atkvæði um einhver mál að nýta líka rafrænt kosningakerfi þannig að mögulega megi fækka einhverjum ferðum. Það er oft í þessu alþjóðasamstarfi verið að greiða atkvæði um fáa og kannski ekki mjög merkilega hluti, þótt það hafi verið í þessu tilfelli, kjör forseta sambandsins, en þá má án efa nýta rafrænar kosningar til að fækka ómarkvissum fundum í raunheimum. Það voru fleiri sem gáfu kost á sér í forsetaembættið en það fór svo að frambjóðandi tólf plús hópsins sem Ísland á aðild, Duarte Pacheco frá Portúgal, var kjörinn í nóvember á síðasta ári forseti Alþjóðaþingmannasambandsins. Á fundi tólf plús hópsins stuttu áður var kosinn nýr þingmaður til að fara fyrir þessum tólf plús hópi og var það hollensk þingkona, Arda Gerkens, sem fer núna fyrir þeim hópi sem Ísland og hin Norðurlöndin eiga aðild að.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa þetta mikið lengra. Alþjóðaþingmannasambandið er áhugaverður vettvangur fyrir þingmenn til að hitta þingmenn frá öllum heimshornum. Það er það sem greinir Alþjóðaþingmannasambandið kannski frá öðru alþjóðastarfi sem Alþingi Íslendinga á aðild að, að þar hafa þingmenn tækifæri til að tengjast og taka upp mál við þingmenn úr öllum heimshornum og koma málefnum á dagskrá í ýmsum faghópum innan sambandsins, menntamálum, jafnréttismálum, heilbrigðismálum og hvaðeina. Þar veldur hver á heldur og málefni sem verða brýnust í þessu samstarfi lúta oft að auknu lýðræði og auknum mannréttindum, brýningu sambandsins og þá hlutverki okkar þingmanna sem komum frá þróuðum lýðræðisríkjum að halda á lofti þeim sjónarmiðum að þeim ríkjum farnist best efnahagslega, félagslega og menningarlega sem hafa náð að tileinka sér lýðræðið og mannréttindi á öllum sviðum.

Mig langar í lokin, af því að það kemur fram í skýrslunni, að nefna að Alþjóðaþingmannasambandið ályktaði um ýmis mál á árinu 2020, þar á meðal um heimsfaraldurinn. Það gat auðvitað ekki skorast undan því. Það er ágætisályktun sem ráðgjafarhópur um heilbrigðismál setti fram um hlutverk þinga þjóðríkja í þessum heimsfaraldri sérstaklega þar sem lögð er áhersla á að þjóðþingin tryggi viðbrögð við heimsfaraldrinum, í þessu sérstaka tilviki kórónuveirufaraldrinum, en um leið að þjóðþingin hafi eftirlit með því að ákvarðanir stjórnvalda séu teknar með meðalhóf að leiðarljósi og að mannréttinda sé gætt og þar fram eftir götunum. Það er líka áréttað að það sé hlutverk þjóðþinga í þessum heimsfaraldri að taka tillit til og vera fulltrúar allra þeirra sem verða fyrir áhrifum heimsfaraldurs. Þá er ekki bara verið að einblína á þá sem smitast af þessum tiltekna smitsjúkdómi heldur sé það hlutverk þjóðþinganna að horfa heildstætt til afleiðinga af faraldrinum og aðgerða sem gripið yrði til vegna faraldursins; að hafa eftirlit með heildstæðum hætti á áhrif af aðgerðum stjórnvalda. Ég hef í formannstíð minni, og á þeim fundum sem ég hef átt með norrænum kollegum og þessum tólf plús hópi, eins og ég nefni hann, sett það sérstaklega á dagskrá og hef nefnt að það hafi vakið furðu mína að ekki skuli hafa verið fyrir fram ákvarðaður staður í dagskrá allra þessara funda til að ræða sérstaklega hlutverk og störf þjóðþinga í faraldrinum.

Virðulegur forseti. Ég læt þessari yfirferð yfir skýrsluna lokið en vísa bara til hennar eins og hún liggur frammi.