151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

atvinnuleysisbótaréttur.

[13:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hundrað manns á mánuði fullnýta atvinnuleysisbótaréttinn sinn og nú þegar hafa þúsund manns, á síðasta ári, dottið út af atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun og það tekur tvö ár að vinna sér inn bótarétt að nýju. Það á greinilega að færa þennan vanda ríkisstjórnarinnar yfir á sveitarfélögin. Um 30% fleiri eða hátt í 500 óskuðu eftir fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og 300 á Reykjanesi. Flestir sem missa bótaréttinn sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna en sveitarfélögin ráða engan veginn við vandann. Á sama tíma og hæstv. félagsmála dregur lappirnar langt á eftir sér í málefnum þeirra hundruða atvinnulausra sem eru að detta út af bótum stendur ekki á honum og ríkisstjórninni að hjálpa þeim sem hafa borgað sér milljarða króna í arð og vita ekki aura sinna tal. Milljónaframlag til þeirra en þeir sem detta út af bótum eiga sér enga von um fæði, klæði eða húsnæði. Það er orðið stutt bil á milli þeirra sem eru með grunnskólamenntun og háskólamenntun á atvinnuleysisbótum, það er eiginlega svo til sami hópurinn. Neyðin vex og við verðum að fara að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Við getum ekki hent fólki út á guð og gaddinn og sagt við það: Þið fáið ekkert, svo til ekkert. Ef fólk fer til sveitarfélaganna og annar aðilinn hefur einhverjar tekjur þá fær það ekkert. Það fær ekki einu sinni 340.000 kr. Það fær ekki neitt af því að það er króna á móti krónu skerðing. Þess vegna segi ég: Hvað er hæstv. félags- og barnamálaráðherra að gera fyrir þetta fólk? Eiga sveitarfélögin að taka á vanda ríkisins? Er ekki kominn tími til að ríkið taki á sínum eigin vanda?