151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[14:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er alveg rétt, við getum alltaf fundið einhvers staðar einn og einn sérfræðing sem styður mál okkar. En það eru allir sem vinna í þessu kerfi, þekkja þetta út og inn, sem segja: Þetta er bara tóm della hjá ykkur, meira og minna. (Gripið fram í: Nei.) Þetta er svipað og ég segði: Ég er með marga sérfræðinga sem segja að það séu engin loftslagsvandamál, það er bara tóm þvæla. Það er fullt af þeim. Við getum örugglega talið þá í þúsundum, en þeir eru bara lítið brot. Það er alveg eins með stjórnarskrána. Hv. þingmaður getur fundið einhvern sem er ekki sérfræðingur í sjálfu sér heldur er bara með pólitíska skoðun og þess vegna þarf að greina á milli hvenær menn hafa þekkingu eða sérfræðiþekkingu á einhverjum hlutum og hvenær menn eru í pólitík. Svokallaðir sérfræðingar eru oft í pólitík.

Hv. þingmaður sagði að við hefðum góða reynslu af því að hafa þetta alveg aðskilið. Hvernig var bankakerfið hér á síðustu öld? Það var gjörsamlega ónýtt og gat ekki sinnt neinu atvinnulífi. Ég ætla ekki að fara þangað aftur, og láta ríkið eiga allan hlutinn og taka alla áhættuna. Ég er ekki þar, hv. þingmaður, og mun aldrei fara þangað. Ég er aðeins að segja: Það er ekki einu sinni skynsamlegt að slíta þarna alveg á milli í íslenskum veruleika. Það eru heldur engar sannanir fyrir því að í sjálfu sér sé áhættan af hruni meiri ef menn eru í fjárfestingarbönkum en í viðskiptabönkum. Ef einhver sýndarmennska er í þessu máli, að mínu viti, er það þessi málflutningur, að segja að það sé ávísun á hrun ef við aðskiljum ekki viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Það eru engin rök til þess. Þó að hægt sé að finna einhvern einn sérvitring þá dugar það mér ekki.