151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

fjármálafyrirtæki.

7. mál
[13:45]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjárfestingarbanka á ekki að fjármagna með innlánum og sparifé almennings. Hér munum við sjá hvaða flokkar styðja það að aðskilja starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Áhættan á að liggja þar sem hún er tekin. Starfsemi bankanna gengur út á að taka við sparifé almennings og ávaxta það og síðan að selja almenningi peninga til að sinna frumþörfum heimila sinna, frumþörfum fjölskyldunnar. Það er í eðli sínu allt annað heldur en starfsemi fjárfestingarbanka þar sem áhætta er tekin og mikill gróði getur skapast en líka mikið tap. Það tap á að falla þar sem það er ákveðið.