151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

almenn hegningarlög.

550. mál
[14:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi sem lætur ekki mikið yfir sér en er gríðarlega mikilvægt. Ég þakka henni fyrir að flytja þetta mál og tel mjög mikilvægt að vandað verði mjög til verka í hv. allsherjar- og menntamálanefnd eins og ævinlega þegar fjallað er um slík mál vegna þess að þau eru viðkvæm. Málið snýr að verndun einstaklinga, bæði verndun barna og verndun einstaklinga sem á einhvern hátt eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa skýra vernd stjórnvalda.

Ég hnýt aðeins um að talað er um nauðungarhjónaband vegna þess að mér hefur borist til eyrna að hér á landi sé eftirlit ekkert sérstaklega mikið þegar hjónavígslur eiga sér stað milli fólks sem mögulega hefur ekki valið sjálft að ganga í hjúskap. Ég vil beina þeim orðum til hæstv. ráðherra að hefja litla könnun á því innan ráðuneytisins hvort verið geti að nauðungarhjónabönd séu á einhvern hátt stunduð, ekki í miklum mæli en að þau eigi sér stað á Íslandi, og hvað við getum gert hér á landi til að koma í veg fyrir slíkt. Hvernig er verið að framkvæma rannsókn á könnunarvottorðum sem verða að liggja fyrir þegar gengið er í hjúskap? Hvernig er staðið að því að kanna hvort fólk gangi í hjúskap án þess að það sé skráð með lögformlegum hætti í þjóðskrá, þ.e. að lagaleg hlið hjúskaparins sé ekki til staðar heldur sé þetta eingöngu gert á einhverjum öðrum sviðum, einhverjum öðrum svæðum — nú er ég að reyna að vanda orð mín mjög til að vekja ekki of margar spurningar — en þó þannig að verið sé að gefa fólk saman í hjúskap, mögulega börn undir aldri, sem ekki er hægt að skrá í þjóðskrá en verið sé að gera það innan vébanda trúfélaga eða annarra sambærilegra stofnana. Ég held að rík ástæða sé til þess að hæstv. dómsmálaráðherra láti kanna það innan ráðuneytisins hvort verið geti að sögusagnir um þetta eigi við rök að styðjast. Ef svo er bera stjórnvöld ábyrgð á því að vernda þá einstaklinga sem þarna um ræðir. Að öðru leyti fagna ég eindregið þessu frumvarpi um mansal sem birtist á margvíslegan hátt í íslensku samfélagi.