151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

almannatryggingar.

[12:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á sama tíma og við heyrum um launahækkanir upp á 370.000 kr. á mánuði, það ofan á 2,5 millj. kr. mánaðarlaun og einnig eingreiðslu upp á 3 millj. kr. til sama aðila, er fólk sem þarf að lifa á rúmlega 200.000 kr. á mánuði í almannatryggingakerfinu að verða fyrir skerðingu upp á 68.000 kr. á mánuði vegna maka eða bara vegna þess að barn þess verður 18 ára gamalt.

Svo er það giftingarskatturinn. Hjón höfðu samband við mig um daginn, bæði öryrkjar, og spurðu: Hvað skeður ef við giftum okkur? Hvað skeður ef þau taka sig til og gifta sig? Ég sagði þeim að brúðkaupsgjöfin frá Tryggingastofnun ríkisins í formi skerðingar yrði upp á 146.000 kr., eftir skatt nærri 94.000 kr.

Hvað á einstætt foreldri, öryrki, með barn að gera þegar barnið verður 18 ára? Á það að henda því út? Á það að skrá það annars staðar? Hvað á það að gera þegar það missir 68.000 kr., 47.000 kr. eftir skatt, af tekjum sínum? Ef við heimfærum þetta yfir á ráðherra, laun hans, þýðir það að þegar barnið hans verður 18 ára missir hann 600.000 kr. Er það eðlilegt? Eða meðallaunamaður með 700.000 kr. í tekjur, þegar barnið hans verður 18 ára missir hann 200.000 kr. Er ekki kominn tími til að hætta þessu fjárhagslega ofbeldi, hæstv. félags- og barnamálaráðherra?