151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

sveitarstjórnarlög.

491. mál
[14:02]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér enn og aftur fyrir frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, nánar tiltekið um borgarafundi og íbúakosningar um einstök mál. Í 108. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um tvö atriði sem varða þetta mál, annars vegar svokallaða borgarafundi og hins vegar íbúakosningar um einstök mál. Greinin sjálf ber yfirskriftina Frumkvæði íbúa sveitarfélags. Tveir annmarkar eru á þessu ákvæði sem flutningsmenn frumvarpsins, þingflokkur Pírata, telja að bæta megi úr en það eru skilyrðin fyrir því að borgarafundur sé haldinn og því að íbúakosning sé haldin.

Þegar kemur að borgarafundum kemur fram í 1. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga að óski minnst 20% þeirra sem hafa kosningarrétt í sveitarfélagi eftir því þá skuli sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er að halda borgarafund og fer þá framkvæmdin eftir ákvæði 105. gr. sömu laga. Einnig kemur fram í 2. mgr. að óski 20% þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi almennrar atkvæðagreiðslu skuli sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að óskin berst.

Flutningsmenn frumvarpsins telja enga ástæðu til að binda hendur sveitarfélaga eða setja þeim mörk hvað varðar þá prósentutölu sem kveðið er á um, 10% fyrir borgarafundi og 20% fyrir íbúakosningu. Þess í stað er lagt til að rýmka heimildir sveitarfélaga til að ákveða aðra prósentu. Í lögunum sjálfum er nefnilega heimild sveitarfélags til að hækka þá prósentutölu sem þarf til að halda íbúakosningu en hvergi höfum við fundið rökstuðning fyrir því að sveitarfélög mættu ekki lækka þá prósentu. Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins getur sveitarfélagið í sjálfu sér haldið íbúakosningu ef því sýnist, jafnvel án þess að sérstök ósk berist um það. Hið sama á við um borgarafundi. Hins vegar hefur það þann annmarka að heimildin nær ekki til þess að lækka prósentutöluna sem um er að ræða. Borgararnir, kjósendurnir, íbúar í sveitarfélagi, hafa ekki fyrir fram færi á því að vita til hvers er ætlast af þeim til að knýja fram borgarafundinn eða íbúakosninguna. Segjum sem svo að kjósandi búi í sveitarfélagi og vilji fá íbúakosningu um tiltekið mál af handahófi en nái einungis 10% atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu en ekki 20% eins og lögin segja til um, þá getur sveitarfélagið í sjálfu sér alveg haldið íbúakosningu ef það vill. En þá eru hvorki formlegir ferlar í kringum það hvernig eigi að skila inn undirskriftalistum né hvernig eigi standa að þeim. Sömuleiðis er það háð geðþótta sveitarfélagsins hverju sinni hvort íbúakosningin sé haldin. Ef sveitarfélagið er hins vegar þeirrar skoðunar að almennt eigi að gilda 10% regla er komið jafnræði milli þeirra sem myndu vilja halda íbúakosningu um tiltekið málefni en annaðhvort ætla sér það ekki eða ná ekki 20% markinu.

Staðan núna er sú að vilji sveitarfélag setja þá meginreglu að 10% þeirra sem hafa kosningarrétt í sveitarfélaginu geti knúið fram íbúakosningu um tiltekið málefni þá getur sveitarfélagið það ekki í samræmi við þessi tilteknu lög. Það væri svo sem hægt að láta reyna á það með einhvers konar pólitískri yfirlýsingu sem sveitarstjórnarmeðlimir þyrftu þá að svíkja þegar 10% kæmu inn. Þess í stað er eðlilegra að breyta lögunum til að viðurkenna rétt sveitarfélaga til að hafa lægra hlutfall í samþykktum sínum um það til hvers er ætlast af íbúum þegar kemur að því að knýja fram íbúakosningar eða borgarafundi. Sömuleiðis er vert að hafa í hyggju að fyrir lýðræði almennt skiptir verulegu máli að skjólstæðingar lýðræðisfyrirkomulagsins, þ.e. þeir sem verða fyrir ákvörðunum þess, þekki réttindi sín fyrir fram, að það séu formlegir ferlar sem hægt er að sjá fyrir fram hvernig virka til að knýja fram hina eða þessa kosninguna eða atkvæðagreiðsluna og með hvaða áhrifum.

Þegar íbúar í sveitarfélagi, kjósendur í þjóðríki eða fólk almennt fer með einhvers konar bænaskrá eða beiðnalista til yfirvalda sem ákveða sjálf framgang málsins, hvort tekið sé mark á beiðninni og hver áhrifin verði, þá er lýðræðið mun veikara, hygg ég, en fólk áttar sig á. Eitt skýrasta dæmið um þetta er kannski í ríkjum þar sem í sjálfu sér er kosið, einstaklingar eða flokkar eru kosnir, en með þeim fyrirvara að einhver annar ákveður hverjir fá að vera í framboði. Þannig er það t.d. í Íran. Nú er ég ekki að líkja aðstæðum hér við Íran, heldur bara að taka dæmi um hvernig eitthvað getur skemmt lýðræðisferlið mjög auðveldlega með mjög einfaldri reglu sem fyrir sumum virðist vera tiltölulega skynsamleg. Þar ákveða klerkayfirvöldin hverjir geta boðið sig fram og svo geta kjósendur kosið þá sem eru í boði. Það er kallað lýðræði þar, alla vega af yfirvöldum, en er það ekki í reynd vegna þess að sá fyrirvari er á því að þegar allt kemur til alls er ekkert ákveðið í óþökk yfirvalda. Það er grunnurinn. Til að lýðræðið virki þarf að vera hægt að ganga gegn vilja þeirra sem hafa völdin hverju sinni. Það er grundvallaratriði í lýðræðinu sjálfu. Ég vil ítreka, virðulegi forseti, að ég tek Íran einungis sem öfgakennt dæmi og er ekki að bera það saman við aðstæður hér.

Sömuleiðis er reynslan að mínu mati sú þegar kemur að ráðgefandi atkvæðagreiðslum — sem ég tel þó siðferðislega skyldu yfirvalda að fylgja, svo að það sé sagt — að yfirvöldum finnst oft mjög einfalt og auðvelt og sjálfsagt og augljóst að þau geti einfaldlega hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gerðist hér árið 2012 og hefur öllu heldur verið staðan alla tíð síðan. Hér var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla en hún var ráðgefandi og kjósendur voru ekki spurðir hvort tiltekin lög ættu að standa eða falla eða hvort tiltekið skjal ætti að vera lögfest eður ei, heldur áttu spurningarnar að kalla fram þjóðarviljann sem ætlunin var að stjórnmálamenn myndu skilja, enda skrifað á íslenskri tungu ef út í það er farið. Reyndin varð sú að stjórnmálamenn, alla vega meiri hluti þeirra, hefur hunsað niðurstöðuna úr þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Það er því miður ekki einsdæmi. Það er hneykslanlegt og óforsvaranlegt að mínu mati sem lýðræðissinna. Þetta er aftur á móti það sem gerist þegar ekki eru skýrir ferlar í kringum lýðræðisfyrirkomulagið sjálft og yfirvöld eru reiðubúin til að taka þá pólitísku áhættu að hunsa vilja kjósenda hverju sinni.

Þegar kemur að ákvörðun um hvort fara eigi í íbúakosningu, þjóðaratkvæðagreiðslu, halda borgarafund eða hvað eina skiptir enn fremur máli að ferlið sé skýrt. Annars er hætt við geðþóttavaldi yfirvalda. Þannig gæti hópur fólks í sveitarfélagi sem vill fá íbúakosningu um tiltekið mál, en nær einungis 15% kjörbærra manna í því sveitarfélagi, fengið sína íbúakosningu vegna þess að sveitarfélaginu, eða þeim sem eru kjörnir í stjórn þess, finnst það allt í lagi en sveitarfélagið getur út frá eigin geðþótta alfarið hafnað beiðni annars hóps sem vill íbúakosningu um annað mál og nær líka 15% kjörbærra manna. Nú má færa rök fyrir því að sveitarfélagið samanstandi af kjörnum fulltrúum sem hafi þetta vald. Lagatæknilega er það alveg rétt. Það er alveg hægt að líta þannig á en það er skaðlegt fyrir lýðræðið sjálft að borgarinn gangi ekki að réttindum sínum vísum og að borgarinn sjálfur, kjósandinn sjálfur, geti ekki fyrir fram að áttað sig á afleiðingum lýðræðislegra gjörða sinna, eins og til að mynda þeim að safna undirskriftum og reyna að knýja fram íbúakosningu, þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvað sem vera má.

Mjög mikilvægt er að lögin okkar séu skýr í þessu sambandi. Þá vík ég að því sem gæti mögulega verið lokapunktur minn í þessari ræðu, með fyrirvara um að mér detti eitthvað fleira í hug, en það er að borgarar þurfa að geta lesið lögin og skilið þau rétt. Í stjórnarskrá okkar er ákvæði sem virðist tjá mjög almenna skynsemi, eitthvað sem sumum gæti þótt skrýtið að hafa í stjórnarskrá yfir höfuð vegna þess að það er svo augljóst en það er að lög skuli birta. Í stjórnarskrá Íslands stendur að lög skuli birta. Nú þekkjum við hér á Íslandi ekki það fyrirkomulag að lög séu ekki birt. Við þekkjum ekki það fyrirkomulag að lög séu í einhverjum skjalakassa einhvers staðar í ráðuneyti og að borgarinn þurfi að fá sérstakt leyfi til að fá aðgang að lögum. Það er grundvallaratriði að borgarinn hafi aðgang að lögum gjaldfrjálst og hindrunarlaust. Ástæðan fyrir því er nákvæmlega sú að til þess að lög virki þarf borgarinn að vita hver þau eru. Ef svo væri ekki hefðu yfirvöld gríðarlegt geðþóttavald yfir samfélaginu, jafnvel þó að lagabálkurinn væri nákvæmlega sá sami og hann er í dag. Þekkingarleysi gagnvart lögum er sjálfstætt vandamál fyrir borgarann og framfylgni laga. Sömuleiðis grefur þekkingarleysi borgarans á afleiðingum lýðræðislegra gjörða sinna, svo sem að safna undirskriftum, undan lýðræðisfyrirkomulaginu sjálfu. Það þarf að vera skýrt fyrir fram. Það þurfa að vera beinar lagalegar afleiðingar af lýðræðislegum gjörðum fólks. Niðurstaðan þarf að hafa beinar lagalegar afleiðingar samkvæmt lögum.

Nú er staðan sú í sveitarstjórnarlögum að það er alveg mögulegt fyrir sveitarstjórn að haga fyrirkomulaginu á lýðræðislegri hátt en lögin segja strangt til tekið til um. Það er samt vandamál, virðulegi forseti, að ef borgarinn les opinber lög Íslands sér hann ekki sína kosti í stöðunni hverju sinni, jafnvel þótt sveitarfélag hafi ákveðið að koma á lýðræðisumbótum að eigin frumkvæði. Þetta er vandamál af sömu ástæðu og það væri vandamál ef einungis meiri hluti laga væri birtur en einhver hluti þeirra ekki. Það er nákvæmlega sama vandamálið. Þetta minnir mig á, og ég verð að nefna það hér vegna þess að það kom upp svo nýlega, að við settum nýja löggjöf um stafrænt kynferðisofbeldi eða myndrænt kynferðisofbeldi, að þá komu upp örfáir þingmenn og endursögðu það sem hefur verið sagt af sumum lögfræðingum gegnum tíðina, að verknaðurinn sem við vorum að banna hefði þá þegar verið bannaður. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, virðulegi forseti, enda annað mál. En þetta lýsir svolítið hversu auðveldlega viðhorf yfirvalda — jafnvel vel menntaðra þingmanna og vel menntaðra lögfræðinga — þetta geðþóttavald sem verður til í ljósi óskýrra laga eða lagaflækja til að ná lagalegu markmiði — getur grafið undan getu borgarans til að sækja réttindi sín og verja þau.

Auðvitað eiga lög að vera eins skýr og mögulegt er fyrir borgarana. Auðvitað er mikilvægt að borgarinn geti flett upp á vef Alþingis eða annars staðar lögunum eins og þau raunverulega eru og þurfi ekki annaðhvort að hafa háskólamenntun í lögfræði eða rannsaka dómafordæmi Hæstaréttar til að átta sig á réttindum sínum og skyldum. Það er afleit staða, virðulegi forseti, og bara nýlega höfum við hlýtt á ræður hér í pontu sem sýna fram á mikilvægi þess og hversu auðvelt það er fyrir yfirvöld hverju sinni að líta fram hjá því að almenningur þurfi að þekkja lýðræðisleg réttindi sín og rétt samkvæmt almennum hegningarlögum jafnvel.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég til fyrri umræðna um sama mál. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið er lagt fram. Ég vil að lokum nefna þá hv. þingmenn sem flytja málið, sem eru sá sem hér stendur og hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Að lokum legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.

Alveg að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)