151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[14:17]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna stuðnings við smærri innlenda áfengisframleiðendur. Flutningsmenn eru þrír hv. þingmenn Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og sá sem hér stendur, Þórarinn Ingi Pétursson.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp er keimlíkt frumvarpi dómsmálaráðherra, sem þegar er búið að flytja og er komið í vinnslu hjá allsherjar- og menntamálanefnd, sem gengur út á það fyrst og fremst að heimila smærri brugghúsum vítt og breitt um landið, þ.e. handverksbrugghúsum, að selja vöru sína á framleiðslustað. Það sem er öðruvísi við þetta frumvarp, og það gengur lengra á ýmsan hátt, er í fyrsta lagi það að þau brugghús sem hafa heimild til þess að flokkast sem handverksbrugghús framleiða að hámarki milljón lítra á almanaksári og þá náum við utan um öll þau handverksbrugghús sem starfandi eru hér á landi. Má geta þess að starfandi eru samtök hér á landi sem heita Samtök íslenskra handverksbrugghúsa. Þau draga mörkin við milljón lítra.

Í þessu frumvarpi er fjallað um áfengisframleiðslu. Við erum ekki bara að fjalla um áfengt öl heldur einnig um framleiðslu á áfengi allt að 40%. Í öðru lagi tekur frumvarpið á ákveðnum hlut sem snýr að afslætti af áfengisgjaldi, allt að 50%. Við teljum að með þeirri breytingu rennum við styrkari stoðum undir starfsemi handverksbrugghúsa. Það eflir atvinnulífið á landsbyggðinni og gefur líka þeim fyrirtækjum tækifæri til að fara í ákveðna þróunarvinnu og stunda nýsköpun og þess háttar. Mikil gróska er í áfengisframleiðslu hér á landi og einnig hefur áfengisframleiðendum, t.d. brugghúsum og framleiðendum á gini, farið fjölgandi síðastliðin ár. Frumvarpið er m.a. lagt fram með byggðasjónarmið í huga, en það er til þess fallið að stuðla að frekari atvinnurekstri ásamt fjölbreyttari atvinnumöguleikum um allt land. Eins og áður hefur komið fram eru flestir smærri áfengisframleiðendur staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins.

Við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra sem nú er í vinnslu í allsherjar- og menntamálanefnd hafa þegar komið inn 40 umsagnir. Vissulega eru þessi mál frekar tengd en það mál sem við leggjum fram ætti að sjálfsögðu að styrkja frekar mál hæstv. dómsmálaráðherra og styrkja nefndina í því að velta fleiri möguleikum fyrir sér í því hvernig hægt er að fara með þessa hluti hér á landi, hvað við eigum að stíga langt o.s.frv. Það er alltaf álitamál hversu langt á að ganga í því að leyfa sölu á áfengi en með þessu frumvarpi eru settar ákveðnar kvaðir á þessa hluti sem menn verða að fylgja og í því samhengi tölum við um ákveðið magn sem menn geta keypt á framleiðslustaðnum. Í frumvarpinu er talað um að taka megi með sér eina kippu t.d. af bjór af framleiðslustaðnum.

Í því samhengi má nefna að það er þannig með flest þeirra brugghúsa sem nú eru starfrækt, handverksbrugghúsa sem eru starfrækt vítt og breitt um landið, að hægt er að fara inn til þeirra, þau hafa áfengisleyfi, og kaupa áfengi hjá þeim en ekki má taka það með sér burt. Einnig getum við bent á í þessu samhengi að það hefur verið miklum vandkvæðum bundið fyrir minni brugghús að koma vöru sinni í verslanir ÁTVR. Við þekkjum það öll að hægt er að brugga einhvern ákveðinn bjór, sem tengist t.d. páskum, þorranum og einhverjum sérstökum tilefnum, það er þá einhver sérstök lítil framleiðsla sem kemst í hillur ÁTVR. En til þess að geta verið þar inni þarf að komast í gegnum vissan kanal þar, ná visst mikilli sölu o.s.frv. og þá hafa menn einna helst komist með lagerbjóra í verslanir ÁTVR, en síðan er mikil flóra í þessari bruggmenningu. Í núverandi fyrirkomulagi eiga menn mjög erfitt með að koma vörunni á framfæri og því tel ég að með frumvarpinu sem hér er lagt fram, og ég vil líka taka fram að það á við í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra, erum við töluvert að opna dyrnar og hleypa mönnum svolítið af stað með þessa hluti.

Töluvert hefur verið spurt hvort þetta geti ekki haft neikvæð áhrif á lýðheilsu en ég óttast það ekki. Það er með þessa vöru eins og alla aðra vöru að fræðsla varðandi meðferð hennar er númer eitt, tvö og þrjú. Ef menn ganga vel um þessa hluti þá tel ég að það eigi ekki að hafa nein stórkostleg neikvæð áhrif á lýðheilsu.

Við gerð frumvarpsins var horft til þess hvernig hlutirnir eru hjá nágrönnum okkar í Evrópu og við horfðum t.d. til Danmerkur, til Bretlands, til Evrópusambandsins. Þar eru þessar heimildir til staðar fyrir handverksbrugghús, þ.e. heimild til smásölu á framleiðslustað og einnig afsláttur af áfengisgjaldi. Þetta hefur verið þar við lýði í töluverðan tíma og tekist bara nokkuð vel til. Í Noregi eru ákveðnar reglur um þessa hluti en lykilatriðið er að handverksbrugghúsin séu ekki hluti af einhverri stærri samstæðu. Þar verða menn að draga línuna.

Varðandi lýðheilsusjónarmiðin undirstrika ég að ég tel að með þessu frumvarpi, og það hefur svo sem líka komið fram hjá hæstv. dómsmálaráðherra þegar hún fylgdi sínu frumvarpi úr hlaði, að ekki séu teljanleg merki þess að það eigi að hafa einhver áhrif á lýðheilsu, en ég ítreka líka að það gildir alltaf um þessa vöru eins og aðra að menn þurfa að bera virðingu fyrir henni og ganga skynsamlega um hana.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég legg þetta frumvarp hér fram og það fer til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, vænti ég, til umfjöllunar þar sem hið góða frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra er nú þegar.

Ég ítreka líka að í frumvarpinu eru þættir sem ég mér finnst mjög vert að skoða, sem snúa að lækkun á áfengisgjaldi, og að menn horfi til milljón lítra hámarksins, þannig að öll þessi minni handverksbrugghús geti rúmast innan þess ramma sem verið er að fjalla um hérna. Ég minni enn og aftur á það að Samtök íslenskra handverksbrugghúsa draga ákveðna línu og þar miða menn við milljón lítra hámarkið.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra.