151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnumál innflytjenda á Suðurnesjum.

[13:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra jákvæðar undirtektir og hvet hann til dáða af því að þörfin er núna. Við erum að vinna að ýmsum aðgerðum til að draga úr þörfinni, en þörfin til að geta gengið inn af götunni og fengið aðstoð og ráðgjöf er núna. Það mætti í sjálfu sér koma upp tilraunaverkefni innan tilraunaverkefnisins með því að opna sem snöggvast, í samvinnu við stofnanir og yfirvöld á svæðinu — ég vil taka fram að sveitarstjórnir á svæðinu hafa haldið gríðarlega vel utan um þessi mál. Mér finnst það standa upp á ríkisvaldið aðstoða við það. Það er hægt að fá ráðgjöf á netinu, hin nýja ráðgjafarstofa innflytjenda býður upp á það á heimasíðunni newiniceland.is og ég hvet fólk til að skoða hana. En það kemur ekkert í staðinn fyrir það að ganga inn af götunni og ég fagna því að hæstv. ráðherra sé til í að stíga þau skref með mér að opna útibú í Reykjanesbæ.