151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

530. mál
[18:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Í rauninni hefur minn kæri samstarfsbróðir, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, komið fram öllu því sem ég hefði viljað segja, enda erum við saman á þessu frumvarpi. Það er aðeins eitt sem ég vil undirstinga og knýja á um; réttindi barnsins. Ónauðsynleg inngrip og ónauðsynlegar aðgerðir á barni eru ekkert annað en ofbeldi. Viljum við beita börn, varnarlaus börn, ofbeldi? Flokkur fólksins segir nei. Ég veit ekki með alla hina sem ekki eru hér og nú, en Flokkur fólksins segir: Nei, það viljum við ekki.

Við höfum verið að setja reglur og breytt lögræðisaldrinum, maður varð fullveðja 16 og 18 ára og allt það. En um ónauðsynlegar aðgerðir, hvort sem það er að gata börnin eða hvaðeina annað sem er án þess að þau óski þess sjálf eða hafi vit eða vilja til þess að láta koma svoleiðis fram við sig, um allt slíkt segi ég einfaldlega: Það er ofbeldi gegn barninu og það viljum við ekki sjá. Flokkur fólksins segir nei við öllu ofbeldi gegn börnum.