151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun. Nefndin hefur fjallað um þetta mál í þó nokkurn tíma og unnið þétt saman og unnið að því að skapa meiri sátt um þetta mál en kom kannski fram í umsögnum þeirra sem komu fyrir nefndina. Ég tel að það hafi tekist bærilega. Markmið frumvarpsins er að færa nýsköpunarumhverfið nær nútímanum og stefna fram á við og auka samkeppnishæfni bæði innan lands og gagnvart erlendri nýsköpun.

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland var birt haustið 2019. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar sé að beina fjármagni í rannsóknir og frumkvöðla frekar en umsýslu og yfirbyggingu. Markmið frumvarpsins er þannig að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Áhersla er lögð á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og rannsóknir og fræðslu í byggingariðnaði. Leitast er við að forgangsraða verkefnum, draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til þeirra verkefna sem því er veitt í. Þessu markmiði skuli náð með aðgerðum sem að hluta felast í frumvarpinu en einnig með verkefnum sem unnið er að af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Eins og ég hef nefnt þá er verið að fjalla um einföldun á stuðningskerfi nýsköpunar. Í vinnu nefndarinnar fengum við fjölda gesta til að fjalla um þessa þætti og fylgja eftir sínum umsögnum. Í dag hefur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fært hluta af starfsemi og verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar, sem lagt er til að leggist af í þeim breytingum sem hér eru boðaðar. Til að mynda hefur starfsemi Efnagreininga flust til Hafrannsóknastofnunar og ýmis verkefni ásamt starfsmönnum hafa flust annað innan stjórnsýslunnar.

Meiri hlutinn telur mikilvægt framfaramál að unnið sé eftir skýrri stefnu hvað varðar aðgerðir til að styðja við nýsköpun og aukna samkeppnishæfni á landsvísu. Þar eigi m.a. að leggja áherslu á að fylgja eftir og innleiða klasastefnu fyrir Ísland.

Meiri hlutinn hefur við vinnu sína lagt áherslu á að verið sé að endurskapa og þróa stuðningsumhverfi við nýsköpun með sem bestum formerkjum til langrar framtíðar. Hefur því verið leitast við eftir megni að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram við meðferð málsins um hvernig megi styrkja og bæta frumvarpið sem hér hefur verið mælt fyrir.

Þá kem ég aðeins inn á breytingartillögur meiri hlutans sem snúa að stuðningi og ráðgjöf við nýsköpun og aðstoð við frumkvöðla. Með 1. gr. frumvarpsins er sett fram það markmið að sérstök áhersla verði lögð á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni. Stuðningsnet nýsköpunar verði eflt og þétt á forsendum landshlutanna sjálfra og í náinni samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga, atvinnulíf og menntakerfi á einstökum svæðum. Í greinargerð segir að settur verði upp verkefnasjóður fyrir nýsköpun sem ætlað er að leggja grunn að öflugu vistkerfi fyrir nýsköpunarstarfsemi á landsbyggðinni.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að í lögum sé skýrar kveðið á um hvernig stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf verði háttað og leggur því til breytingar á 9. gr. frumvarpsins í þessum tilgangi en þar er nú lagt til að ráðherra verði heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar.

Um ráðgjöf við nýsköpun og nýsköpunargátt. Þar gerum við tillögur um enn frekari stuðning og breytingar til að styðja aðgengi að stuðningi við frumkvöðla. Við meðferð málsins komu fram þau sjónarmið að stuðningur við nýsköpun væri frekar brotakenndur og stuðningskerfið flókið. Meiri hlutinn leggur til að ráðuneytinu verði falið að setja upp stafræna upplýsingagátt og nýsköpunargátt sem hluta af stafrænu Íslandi. Þar verði hægt að nálgast á aðgengilegan hátt upplýsingar um það opinbera stuðningsumhverfi sem er til staðar við nýsköpun, hvort sem um er að ræða frumkvöðla með hugmynd á byrjunarstigi, rótgróið fyrirtæki með verkefni í nýsköpun eða erlenda aðila sem hafa áhuga á að vinna að nýsköpun hér á landi.

Meiri hlutinn leggur jafnframt til að ráðuneytið starfræki beina ráðgjöf við nýsköpun í tengslum við nýsköpunargátt. Boðið verði þar upp á almenna ráðgjöf og svör veitt við algengum spurningum sem koma upp sem og sértækum spurningum. Fyrir nefndinni og í umsögnum um málið kom fram að kostnaður við að sækja ráðgjöf vegna hugmynda á frumstigi geti orðið mörgum þröskuldur og komið í veg fyrir að hugmyndir nái lengra. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að tryggt verði að frumkvöðlar hafi aðgang að gjaldfrjálsri ráðgjöf á fyrstu stigum hvar sem er á landinu og að sú ráðgjöf verði fjármögnuð af ráðuneytinu en starfsemin boðin út í opinberu útboði. Slík ráðgjöf verði nánar skilgreind í reglugerð.

Til viðbótar við aðstoð gegnum nýsköpunargátt, sem er nýmæli, verði ráðuneytinu falið að skoða hvernig byggja megi upp og þróa innviði fyrir nýsköpunarumhverfið gegnum byggðaáætlun. Aðgerðin feli í sér að í landshlutunum sé starfsrækt samstarfsnet ráðgjafa sem veiti leiðsögn um styrki til frumkvöðlastarfs, og leiðsögn við undirbúning umsókna til nýsköpunar- og rannsóknaverkefna hjá samkeppnissjóðum, upplýsingar og leiðsögn við fyrstu skref nýsköpunarverkefna og séu ráðgefandi við hugmyndir að nýsköpunarverkefnum meðal annars.

Þá er það verkefnasjóður fyrir nýsköpun sem verður settur á fót. Í greinargerð frumvarpsins segir að gert sé ráð fyrir að settur verði á fót verkefnasjóður fyrir nýsköpun í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga og sóknaráætlanir landshlutanna og hann tengdur við næstu byggðaáætlun. Þessi verkefnasjóður verður viðbót við þau verkefni og framlög sem nú eru til staðar á vegum sóknaráætlana landshlutanna.

Meiri hlutinn leggur því til að sérstaklega verði kveðið á um slíka verkefnastyrki í breyttri 9. gr. um stuðning við nýsköpun.

Við komum líka inn á það að styrkja lagaumhverfi stafrænna smiðja, þ.e. Fab Lab. Stafrænar smiðjur eru reknar víða um land í samvinnu við framhaldsskóla, atvinnulíf og sveitarfélög sem liður í auknu samstarfi atvinnulífs og menntakerfis þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlastarfi.

Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að styrkja umgjörð um stafrænar smiðjur og bendir á að samningar um rekstur stafrænna smiðja falli einnig undir heimild ráðherra til að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar. Meiri hlutinn minnir jafnframt á að það er ekki eingöngu á hendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að semja um rekstur stafrænna smiðja, enda er um að ræða verkefni sem unnið er í samstarfi við bæði mennta- og menningarmálaráðuneytið og fulltrúa viðkomandi svæða. Að þessu sögðu leggur meiri hlutinn til að aukið verði við ákvæði 9. gr. frumvarpsins heimild ráðherra til að semja um rekstur stafrænna smiðja. Fjármagn til þeirra hefur verið aukið síðastliðin ár og er enn þá aukið í á næstu tveimur árum, upp í tæpar 80 millj. kr.

Þá um tæknisetur og landsbyggðina. Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að í stjórn félags um tæknisetur sitji þrír til fimm einstaklingar. Í umsögnum um málið og hjá gestum sem komu fyrir nefndina var lögð áhersla á að tryggja aðkomu landsbyggðarinnar, bæði að stjórn félagsins og einnig aðgengi landsbyggðar að aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að skýrt sé að tæknisetrið muni þjóna öllu landinu og aðkoma landsbyggðar verði tryggð í stofnsamþykktum félagsins. Meiri hlutinn leggur jafnframt áherslu á að í stjórn sitji fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, háskólasamfélags á landsbyggðinni, atvinnulífs og frumkvöðla. Stjórnina skipi því fimm einstaklingar hið minnsta og leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis.

Meiri hlutinn leggur til að aukið verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að unnin verði greining á starfsemi félagsins þegar það hefur starfað í tvö ár og að þá gefi ráðherra Alþingi skýrslu um starfsemi tækniseturs. Í kjölfarið skuli meta þörf fyrir sérstakt fulltrúaráð, sem var til umræðu, til hliðar við stjórn félagsins til ráðgjafar.

Þá erum við komin að þeim þætti er snýr að byggingar- og mannvirkjarannsóknum. Við í meiri hlutanum og nefndin öll hefur lagt mikla áherslu á að halda áfram samfellu í byggingarrannsóknum sem er mikilvæg til langs tíma.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að fjölþættar byggingarrannsóknir hafa farið fram hér á landi, allt frá ýmiss konar rannsóknum sem varða byggingarefni, t.d. þróun steinsteypu, og byggingareðlisfræði til viðamikilla rannsókna á alkalískemmdum í steinsteypu, húsamyglu og veðrunarþoli byggingarhluta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að rjúfa ekki þessa samfellu í þessum rannsóknum. Þær hafa m.a. farið fram á Iðntæknistofnun, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins, hjá verkfræðistofum og í tveimur stærstu háskólum landsins. Í allmörg ár var hluti rannsóknanna vistaður hjá Nýsköpunarmiðstöð í Keldnaholti og þar er sérhæfð aðstaða til sumra rannsóknarþátta. Nú þegar Nýsköpunarmiðstöð hættir starfsemi leggur meiri hlutinn áherslu á að endurskoða þurfi vistun, samstarf og fjármögnunarleiðir slíkra grunnrannsókna sem meiri hlutinn telur ekki falla undir gildissvið hins nýja samkeppnissjóðs.

Meiri hlutinn leggur því til breytingar á frumvarpinu sem fela í sér að lögð er áhersla á að rannsóknirnar fari óslitið fram til ársloka 2022 innan vébanda nýs tækniseturs, í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík, og að gerðir verði samningar milli þessara aðila um framkvæmd og fjármögnun skilgreindra verkefna. Tæknileg aðstaða sem er fyrir hendi verði nýtt eins og unnt er og þær rannsóknir sem nú standa yfir verði í forgangi. Á fyrrgreindu tímabili verði unnið að því að endurskipuleggja rannsóknastarfsemina hvað varðar fyrirkomulag, starfshætti og fjármögnun með það að markmiði að tryggja samfélagslegan og vísindalegan ávinning af henni.

Síðan er komið að prófunum og fræðslu í byggingariðnaði. Nefndin leggur áherslu á að prófanir í byggingariðnaði með tilliti til faggildingar haldi áfram og það verði unnið verði að því að prófanir á byggingarvörum verði framkvæmdar af faggildum aðilum í samræmi við alþjóðlegar gæðakröfur. Þær prófanir sem forsendur eru til að framkvæma á markaði verða látnar einkaaðilum eftir.

Þá er því lýst í frumvarpinu að áhersla verði lögð á að tryggja samfellu í rannsóknum og prófunum í byggingariðnaði og að lagður verði grundvöllur að nýsköpun og aðlögun byggingariðnaðarins að alþjóðlegum gæðakröfum. Aðstaða til rannsókna og prófana verður áfram í núverandi húsnæði Rannsóknastofu byggingariðnaðarins í Keldnaholti, undir hatti tækniseturs. Ég tel mjög mikilvægt að það komi ekkert rof í þá samfellu og sú aðstaða nýtt áfram þar til annað verður byggt upp til varanlegrar framtíðar. Ásamt því verði áfram unnið með félagsmálaráðuneytinu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að varanlegu fyrirkomulagi.

Þá erum við komin að starfsmannamálum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Í 10. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði úr gildi lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir og nýsköpun. Það þýðir að starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar verður lögð af. Um starfslok almennra ríkisstarfsmanna gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ákvæði um starfslok þeirra eru fyrst og fremst í þeim kafla laganna sem fjalla um rétt aðila, starfsmanns annars vegar og forstöðumanns hins vegar, til að segja upp ráðningarsamningi. Þá eru þar ákvæði um málsmeðferð uppsagna af hálfu stofnunar.

Fyrir nefndinni og í umsögnum kom fram að mikil áhersla er lögð á að farið verði að lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum hvað varðar starfsmenn Efnis-, líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og þeim boðið starf hjá nýju tæknisetri. Verði lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum talin eiga við í þessari stöðu felst í því að virða skal áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu hjá fyrri vinnuveitanda og jafnframt gildir að ekki sé heimilt að segja starfsmanni upp störfum vegna aðilaskipta bæði fyrir og eftir aðilaskiptin nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi.

Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að lög um aðilaskipti skuli eiga við í þessu tilfelli og leggur áherslu á að fastráðnir starfsmenn í nefndum hluta af starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar færist til tækniseturs. Nefndin leggur því til að við ákvæði til bráðabirgða III bætist ný málsgrein þar sem tilgreint er að um réttarstöðu hinna fastráðnu starfsmanna deildanna tveggja fari eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Jafnframt verði kveðið á um að hið nýja félag, samanber 2. gr. frumvarpsins, skuli bjóða öllum fastráðnum starfsmönnum framangreindra deilda starf.

Varðandi gildistöku frumvarpsins leggur meiri hlutinn til, að tillögu ráðuneytisins, að lögin komi til framkvæmda 1. júlí næstkomandi í stað 1. maí og dagsetningum í ákvæðum til bráðabirgða I, II og IV breytt til samræmis. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóður munu því starfa til og með 30. júní 2021 í samræmi við lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

Þá ætla ég að fara aðeins yfir breytingartillögur sem fylgja þessu nefndaráliti. Ég tek fyrir breytingartillögu sem kemur við 9. gr. sem orðist svo, ásamt fyrirsögn:

„Nýsköpunarstuðningur.

Ráðherra er heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar, svo sem samninga um rekstur stafrænna smiðja.

Ráðherra skal setja á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun og tryggja að ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunarverkefna sé gjaldfrjáls og aðgengileg hvar sem er á landinu, m.a. leiðsögn við umsóknarferli innan stuðningsumhverfis nýsköpunar. Ráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd ráðgjafar um nýsköpun.

Ráðherra skal veita sértæka styrki, Lóu – verkefnastyrki, til eflingar nýsköpun á landsbyggðinni. Hlutverk styrkjanna er að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verðmætasköpun og atvinnulíf sem byggist á hugviti og þekkingu, á forsendum svæðanna sjálfra. Lóu – verkefnastyrkjum skal úthlutað utan höfuðborgarsvæðisins, eins og það er skilgreint í gildandi byggðakorti ESA og leiðbeinandi reglum þar um. Styrkjum má einnig úthluta til verkefna sem stuðla að uppbyggingu vistkerfis fyrir nýsköpunarstarfsemi og frumkvöðlastarf. Ráðherra skal í reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd styrkveitinga, fresti til að skila umsóknum um styrki, form og skilyrði umsókna og matsnefnd vegna styrkveitinga.“

Síðan eru tæknilegar breytingar og lenging á gildistíma núgildandi laga, þ.e. að þessi lög taki gildi 1. júlí 2021.

Í 6. lið breytingartillögunnar bætist ný málsgrein við ákvæði til bráðabirgða III, svohljóðandi:

„Þegar starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar verður lögð niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða I, fer um réttindi og skyldur starfsfólks Efnis-, líf- og orkutækni og Rannsóknastofu byggingariðnaðarins jafnframt eftir lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, eftir því sem við á. Félag skv. 2. gr. skal bjóða öllu fastráðnu starfsfólki framangreindra deilda störf.“

Í 7. lið segir að við frumvarpið bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

„a. Ráðherra skal gefa Alþingi skýrslu um stöðu nýsköpunarstuðnings eftir niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar, þróun nýsköpunarmála á landsbyggðinni, árangur sem og ásókn í hvatastyrki til nýsköpunar sem ráðuneytið úthlutar og starfsemi tækniseturs eigi síðar en tveimur árum eftir samþykkt frumvarps þessa.

b. Ráðherra er heimilt að semja við félag skv. 2. gr. um að hafa umsjón með langtíma, sérhæfðum byggingarrannsóknum í samvinnu við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og nýta til þess þá aðstöðu sem fyrir hendi er. Samhliða verði unnið að framtíðarfyrirkomulagi byggingarrannsókna í landinu og þeim komið í það horf sem best þykir henta fyrir árslok 2022.“

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingartillögum sem gerð er sérstaklega grein fyrir í því breytingaskjali sem ég var að vitna í.

Undir þetta nefndarálit rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður og framsögumaður málsins, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson.

Þar sem við erum að ræða þessi tvö mál saman, einnig frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð, þá mun ég reifa líka undir þessum lið í stuttu máli nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð.

Tækniþróunarsjóður hefur það hlutverk að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Sjóðnum er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er ekki lagt til að gerðar verði efnislegar breytingar á þeim ákvæðum laganna er kveða á um Tækniþróunarsjóð. Þó er gerð sú breytingartillaga að skýrt verði að sjóðnum sé einnig heimilt að styrkja rannsóknir og tækniþróun í samstarfi við erlenda sjóði. Eins og ákvæðið er orðað nú á það einungis við um stofnanir, háskóla og fyrirtæki sem samstarfsaðila.

Ég ætla aðeins að koma inn á breytingartillögu meiri hlutans. Þegar ráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um Tækniþróunarsjóð kom fram það sjónarmið í umræðum í þingsal að óeðlilegt væri að í lögunum væri mælt fyrir um heimild sjóðsins til að eiga aðild að sprotafyrirtækjum á frumstigi nýsköpunar, líkt og áfram er gert ráð fyrir í frumvarpinu, sérstaklega með hliðsjón af því að um er að ræða samkeppnissjóð, og var þar vísað til ákvæðis í frumvarpinu sem er samhljóða ákvæði í lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Sambærilegt sjónarmið kom fram við meðferð málsins fyrir nefndinni þegar bent var á að mikilvægt væri að ekki léki vafi á óhæði og hlutleysi Tækniþróunarsjóðs við mat styrkumsókna. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin fékk frá ráðuneytinu hefur eignarhald sjóðsins í sprotafyrirtækjum á grundvelli þessa heimildarákvæðis ekki tíðkast og hefur sjóðurinn markað sér þá stefnu að beita ekki þessari heimild. Meiri hlutinn telur í ljósi framangreinds að þrátt fyrir að Tækniþróunarsjóður nýti ekki þessa heimild sé mikilvægt að hlutleysi sjóðsins sé hafið yfir vafa. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæði um heimild Tækniþróunarsjóðs til eignarhalds í sprotafyrirtækjum falli brott.

Meiri hlutinn leggur einnig til að við bætist ákvæði þar sem lagt er til að skýrt verði kveðið á um heimild stjórnar Tækniþróunarsjóðs til þátttöku í alþjóðlegum samfjármögnuðum verkefnum og að heimilt verði að byggja úthlutun styrkja á mati fagráða sem skipuð eru sameiginlega af samstarfsaðilum. Breytingin er gerð til samræmis við breytingu sem gerð var á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir þar sem stjórn Rannsóknasjóðs var veitt sambærileg heimild til samræmis við verklag sambærilegra sjóða erlendis.

Jafnframt leggur meiri hlutinn til að gerð verði breyting á ákvæði um gildistöku til samræmis við ákvæði um gildistöku í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, en verði það frumvarp að lögum falla lög nr. 75/2007 úr gildi.

Síðan kemur hér breytingartillagan í nokkrum liðum, sumt af þessu er tæknilegt, en 3. liður hljómar svo:

„Við 2. mgr. 4. gr. bætist nýr málsliður, sem verði 2. málsl., svohljóðandi: Í alþjóðlegum samstarfsverkefnum rannsókna- og þróunarsjóða er heimilt að byggja á niðurstöðum fagráða sem skipuð eru af samstarfsaðilum.“

4. liður: „Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi, ásamt fyrirsögn:

Breyting á öðrum lögum.

Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003: Í stað „12. gr. laga nr. 75/2007“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 3. gr. laga um Tækniþróunarsjóð.

5. liður: Í stað dagsetningarinnar „1. maí 2021“ í 7. gr. komi: 1. júlí 2021.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma hér.

Undir álitið rita sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, Haraldur Benediktsson, framsögumaður þessa máls, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.

Þá er komið að leiðarlokum í að fjalla um þessi nefndarálit og þær breytingar sem hér eru undir í þeim tveimur málum sem eru hér til umræðu, frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun og fylgiafurð þess, frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð. Ég vil ljúka máli mínu á því að þakka gott og þétt samstarf innan nefndarinnar í þessu máli. Við höfum reynt sem við gátum að mæta þeim áhyggjum og vangaveltum sem komu fram í mjög mörgum og efnismiklum umsögnum og voru margar mjög keimlíkar. Þar kom fram að það þyrfti að styrkja enn frekar umhverfi nýsköpunar og tryggja að þau góðu áform sem koma fram í frumvarpinu rati inn í lagatexta, þ.e. tryggja samfellu í byggingarrannsóknum og að þar verði ekkert rof á. Einnig að tryggja að áfram yrðu möguleikar fyrir nýsköpun og frumkvöðla á byrjunarstigum til að leita ráðgjafar, ókeypis ráðgjafar og stuðnings, við að sækja um í þá sjóði sem hægt er að sækja um í fjölbreyttu nýsköpunarumhverfi. Allt þetta teljum við að við höfum náð utan um í þessu máli. Ég vil bara þakka fyrir þá góðu vinnu hjá allri nefndinni að gera þetta mál enn betra í þágu nýsköpunar í landinu og ber væntingar í brjósti um að það muni hafa mjög jákvæð áhrif í nýsköpunarumhverfinu og efla þjóðarhag.