151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 2. minni hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun.

Að mati 2. minni hluta var frá upphafi ljóst að frumvarp þetta væri ófullburða, svo sem sjá má af því að af hálfu meiri hlutans eru gerðar umtalsverðar breytingartillögur við efni þess. Ber að meta þá viðleitni meiri hlutans til að færa málið í betra horf. Við umfjöllun um málið hafa fulltrúar meiri hluta og beggja minni hluta lagt sig fram um að leggja til breytingar með það að markmiði að bæta efni frumvarpsins. Vil ég nota tækifærið og þakka gott samstarf í nefndinni undir forystu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur.

Þá bendir 2. minni hluti á að ítarleg og hátimbruð markmiðslýsing í 1. gr. frumvarpsins á sér enga samsvörun í innihaldi þess. Á það var ítrekað bent í umsögnum og af hálfu gesta á fundum nefndarinnar. Má með hæfilegri einföldun segja að virkar efnisgreinar frumvarpsins séu aðeins tvær; að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem virðist hafa verið aðalatriði málsins af hálfu ráðuneytisins, og að veita ráðherra heimild til að stofna nýtt félag, þ.e. einkahlutafélag um starfsemi tækniseturs.

Stuðningur af hálfu hins opinbera við nýsköpun er þýðingarmikið málefni sem kallar á vandaða vinnu og undirbúning þegar ráðist er í lagasetningu þar um. Vísar 2. minni hluti sérstaklega til umsagnar Kristjáns Leóssonar, þróunarstjóra nýsköpunarfyrirtækisins DT-Equipment ehf., um málið en þar segir:

„Því miður er fyrirliggjandi frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið

án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ,

án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum,

án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar,

án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi viðkomandi rannsóknastofnana atvinnuveganna en þeirra sem snúa að nýsköpunarumhverfinu,

án greiningar á hvar helstu tækifæri Íslands í tæknirannsóknum liggi og

án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur af framlagi hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð.“

Kristján telur að réttast væri að fresta því að leggja fram umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.

Annar minni hluti tekur undir þessi sjónarmið um nauðsynlegan grundvöll viðamikilla lagabreytinga í málaflokknum. Verulega sýnist hafa skort á að frumvarpið væri undirbúið með fullnægjandi hætti.

Að mati 2. minni hluta eru þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til við frumvarpið til bóta og a.m.k. að einhverju leyti fallnar til að bæta úr þeim alvarlegu vanköntum sem voru á frumvarpi ráðherra. Hins vegar hefur ekki verið bætt úr þeim ágöllum við undirbúning málsins sem að framan eru taldir.

Vill 2. minni hluti benda á að ekki virðist hafa tekist að styðja nægilega vel við þau markmið sem sett eru fram í 1. gr. frumvarpsins um hvernig efla skuli og styðja við nýsköpun á landsbyggðinni. Efasemdir eru um að tekist hafi að bregðast nægilega vel við þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér þegar kemur að því að styðja þar frumkvöðlastarf. Æskilegt er að kveðið hefði verið skýrar á þar um í lagatexta.

Jafnframt telur 2. minni hluti bagalegt að ekki hafi verið hugað að því að móta framtíðarstefnu um byggingarrannsóknir. Þar ber sérstaklega að nefna hinar mikilvægu hagnýtu rannsóknir sem kunna að falla utan samninga sem gerðir eru að þar að lútandi við háskóla. Hér er um að ræða umtalsverða samfélagslega hagsmuni af grundvallarrannsóknum sem lúta að byggingum og vegagerð og fjölmörgum öðrum þáttum, þar á meðal myglu í húsakynnum.

Þá telur 2. minni hluti að skýra hefði mátt betur af hverju kosið var að fela Húsnæðis- og mannvirkjastofnun umsjón með hinum nýja samkeppnissjóði um byggingar- og mannvirkjarannsóknir en óvíst sýnist hvort slík umsýsla falli vel að verksviði þeirrar stofnunar. Rannís fer með stóran hluta umsýslu ýmissa rannsóknasjóða og þar er því þegar fyrir hendi þekking, ferlar og umgjörð fyrir umsýslu samkeppnissjóða á við þann sem hér er lagt til að stofnaður verði. 2. minni hluti telur í því ljósi að sterklega hefði komið til álita að Rannís færi með umsýslu hins nýja samkeppnissjóðs.

Vill 2. minni hluti jafnframt vekja athygli á því að óvissa ríkir um fjárhagslegar afleiðingar af þeim breytingum sem lagðar eru til, m.a. þegar kemur að rekstri tækniseturs, en ekki hefur verið lögð fram fjárhagsáætlun fyrir setrið. Þá kom fram í umsögn Háskóla Íslands að óvarlegt sé að gera félaginu að reiða sig að umtalsverðum hluta á fé úr samkeppnissjóðum erlendis frá. Ekki síst á það við þar sem um er að ræða nýtt félag sem á eftir að ávinna sér nægjanlegt orðspor til að geta orðið marktækur viðtakandi framlaga úr samkeppnissjóðum.

Gagnrýnivert er að mati 2. minni hluta hvernig staðið hefur verið að starfsmannamálum í tengslum við niðurlagningu Nýsköpunarmiðstöðvar en við meðferð málsins kom fram að starfsmenn töldu sig í óvissu, svo vægt sé til orða tekið, um hvernig staðið yrði að því ferli. Í umsögnum stéttarfélaga við málið var lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja starfsöryggi sem flestra við tilfærslu þeirra verkefna sem Nýsköpunarmiðstöð hafði með höndum. Breytingartillaga meiri hlutans rennir stoðum undir að þeim þætti hafi ekki verið gefinn nægilegur gaumur við undirbúning frumvarpsins. Sú tillaga er nauðsynleg og ber að styðja.

Herra forseti. Breytingartillögur meiri hlutans miða að því að bæta frumvarp sem var ófullburða þegar það kom fram. Þótt við sem skipum 2. minni hluta, við hv. þm. Sigurður Páll Jónsson, getum ekki stutt frumvarpið af ástæðum sem hér hafa verið raktar styðjum við breytingartillögur meiri hlutans, af þeirri ástæðu að þær eru fallnar til að bæta úr þeirri óvissu sem frumvarpið veldur. Stjórnvöldum hefur með frumvarpinu ekki tekist vel upp við að efla nýsköpun sem hreyfiafl í atvinnulífinu. Leggur 2. minni hluti áherslu á vandaða og ígrundaða málsmeðferð þegar kemur að nýsköpun með virkri þátttöku atvinnulífs og landsbyggðar við framtíðaruppbyggingu atvinnulífs í landinu. Kröftug nýsköpun er mikilvæg forsenda þess að reisa stoðir undir hagsæld landsmanna til framtíðar.

Herra forseti. Við ræðum hér einnig frumvarp um Tækniþróunarsjóð. Þótt við, fulltrúar Miðflokksins í hv. atvinnuveganefnd, styðjum ekki hvernig staðið var að endurskipulagningu verkefna á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og niðurlagningu þeirrar stofnunar, þar sem rót þessa frumvarps liggur, styðjum við frumvarpið um Tækniþróunarsjóð sem nauðsynlega lagastoð undir starfsemi sjóðsins. Að meginstefnu er með frumvarpinu verið að færa ákvæði í gildandi lögum í sérstök lög um sjóðinn, með lítils háttar breytingum sem við fulltrúar Miðflokksins í nefndinni stöndum að ásamt meiri hluta nefndarinnar. Tækniþróunarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki sem samkeppnissjóður á sviði nýsköpunar. Ég óska sjóðnum og þeim sem njóta fyrirgreiðslu úr honum velfarnaðar á komandi tímum.