151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp og nefndarálit um opinberan stuðning við nýsköpun og eins frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð. Þetta hefur verið mjög áhugaverð umræða og virkilega, verð ég að segja, innihaldsríkar ræður sem hafa verið fluttar um það á hvaða vegferð stjórnvöld eru raunverulega í þessu máli. Þá er ég að tala sérstaklega um stuðning við nýsköpun.

Ég vil byrja á því að taka fram að í málinu um Tækniþróunarsjóð erum við hv. þingmenn Miðflokksins sem erum í atvinnuveganefnd, ég og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, á því nefndaráliti af þeirri einföldu ástæðu að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu um að þar væri verið að klippa og líma eitthvað sem er í gildandi lögum þannig að okkur fannst það mál alveg þess virði að styðja en frumvarpið til laga um opinberan stuðning erum við ekki eins ánægðir með, alls ekki.

Hv. þm. Ólafur Ísleifsson fór ansi vel yfir það í sinni ræðu þegar hann mælti fyrir nefndaráliti 2. minni hluta og í raun og veru er kannski ekki miklu við það að bæta. En þegar ég hlustaði á ræður annarra þingmanna áðan fannst mér ég þurfa að leggja orð í belg, í raun og veru bara til að taka undir með flestum sem þar mæltu. Þegar þetta frumvarp var komið á dagskrá í haust áttum við fund með starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar og fleirum og þar komu eindregið fram áhyggjur þeirra af þessu frumvarpi og því að þau höfðu spurt um greiningarvinnu og annað slíkt en ekki fengið nein svör og áttuðu sig ekki á því á hvaða vegferð ráðherra og ráðuneytið væri í þessum málum, þar sem aðalatriðið virtist vera að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og stofna einkahlutafélag án allra raka eða greinargerðar.

Það hefur einmitt komið mjög vel fram í ræðum að það er eitt og sér mjög furðulegt að leggja af stað í svona vegferð, ekki síst á mjög viðkvæmum tímum eins og í dag út af heimsfaraldri Covid-19 og við vitum í sjálfu sér ekki mikið hvernig nánasta framtíð verður. Staðan í þjóðfélaginu og í tilverunni er mjög viðkvæm. Af hverju liggur svona mikið á að leggja eitthvað fram sem á eftir að færa öll rök fyrir hvað standi á bak við, nema þá vilji til að leggja stofnunina niður til að stofna einkahlutafélag?

Reyndar verður að segjast eins og er að þær breytingartillögur sem þó hafa komið frá meiri hlutanum eru til bóta en þær eru frekar einhver frumspörslun í stórar sprungur og þétta ekki nokkurn skapaðan hlut þegar á heildina er litið. Svo má líka segja að maður hefur ekki fengið neina hugmynd um eða neitt að vita hvað tæki við þegar og ef þetta verður að lögum. Ég verð í raun og veru að lýsa yfir furðu minni á því að þetta sé þó komið á þennan stað og fannst ansi athyglisvert þegar ég heyrði einn þingmann segja áðan að Alþingi Íslendinga væri í raun bara stimpilstofnun og það hefur komið fram áður. En það vil ég alls ekki að Alþingi sé. Alþingi á að vera málstofa þar sem við eigum að reifa málin, brjóta þau til mergjar og komast síðan að niðurstöðu. En það er kannski hugsunin hjá einhverjum á bak við þetta, að þessu sé hægt að koma í gegn þannig að það líti út fyrir að við hér á Alþingi séum bara starfsmenn stimpilstofnunar.

Ég tek algjörlega undir það að mikill samhugur er um að styrkja nýsköpun. Við lifum á tímum mikilla tækniframfara. Þær eru svo hraðar að stundum er það sem maður lærir í dag orðið úrelt á morgun. Ég segi fyrir sjálfan mig, í sambandi við framfarir í tölvumálum, að máltækið „það sem ungur nemur gamall temur“ á varla við lengur því að ég læri oft mest í tölvuheiminum af því sem börnin kenna mér. Þeir þingmenn sem hafa talað hér næst á undan mér, mest þingmenn Pírata, sem eru það vel að sér í tæknimálum að þeir eru stundum á undan sinni framtíð, og er það bara í góðu lagi að mínu áliti, hafa flutt fínar ræður í þessu máli.

Mig langar að vitna aftur í umsögn sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson vitnaði í, sem er í nefndarálitinu. Hún er frá einum gestinum sem kom á fund. Það verður að segjast eins og er að flestir gestir sem komu á fundina hafa fundið þessu allt til foráttu. Við höfum verið á mörgum fundum, löngum fundum, fengið marga gesti og maður spyr sig alltaf: Ætla þau að halda þessu áfram? Gesturinn heitir Kristján Leósson og segir, með leyfi forseta:

„Því miður er fyrirliggjandi frumvarp atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun að sama skapi, að mati undirritaðs, samið án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til R&Þ, án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum, án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar, án þess að fullnægjandi tillit sé tekið til annarra þátta í starfsemi viðkomandi rannsóknastofnana atvinnuveganna en þeirra sem snúa að nýsköpunarumhverfinu, án greiningar á hvar helstu tækifæri Íslands í tæknirannsóknum liggi og án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur af framlagi hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð. Undirritaður telur að réttast væri að fresta því að leggja fram umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.“

Ég hef ekki orðið var við neina niðurstöðu úr þeirri greiningarvinnu og ekki þeir ræðumenn sem hafa rætt um þetta hér á undan þannig að ég kalla eftir því að lagst verði í mun betri vinnu, greiningarvinna verði gerð og þau rök tínd til sem þarf til að fara í svona stóra framkvæmd.

Hæstv. forseti. Ég ætla að lokum að segja, eins og ég sagði áðan, að við megum alls ekki gera mistök á þessum tímum. Við megum auðvitað helst aldrei gera mikil mistök hér á hinu háa Alþingi þótt það komi vissulega fyrir en núna á þessum viðkvæmu tímum þegar þarf að taka réttar ákvarðanir, ekki síst í nýsköpunarmálum, þar sem uppbygging landsins byggist að stórum hluta á að rétt skref séu tekin í nýsköpun, þá þurfum við að fara mjög varlega, mjög varlega. Ætla ég að láta það vera lokaorð mín.