151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum nýbúin að afgreiða hér í þinginu frumvarp og gera að lögum, segja þeir sem samþykktu það frumvarp, um Neytendastofu þar sem verkefni eru færð frá Neytendastofu, m.a. til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Neytendasamtökin lýstu t.d. í umsögn sinni undrun yfir því og vissu ekki til þess að í neinu öðru landi væri einhver stofnun eins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem veitti húsnæðislán og væri líka með umsjón með framkvæmd löggildingareftirlits með mælitækjum fyrirtækja og því má bæta við að núna er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun líka með eftirlit með leikföngum og snuðum. Í þessu frumvarpi á enn að bæta við ólíku verkefni sem er að fela Húsnæðis- og mannvirkjastofnun umsjón með hinum nýja samkeppnissjóði um byggingar- og mannvirkjarannsóknir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, líkt og ég, að áherslur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði ómarkvissar? Verkefnin eru svo stór, þau eru svo ólík og það er svo lítil samlegð með þeim. Er ekki hætta á því að eitthvert verkefni sem fellur ekki vel að stofnanamenningunni gæti orðið út undan, eins og t.d. eftirlit með snuðum þegar önnur stærri verkefni, að áliti stofnunarinnar, eru kannski undir?