151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þessi frumvörp, bæði það frumvarp sem við ræðum hér og nú og það sem var afgreitt í síðustu viku varðandi Neytendastofu, séu bara illa undirbyggð. Bæði málin eru því marki brennd að það vantar framtíðarsýn og það er sköpuð óvissa meðal starfsmanna, það verður til kergja og allt um það. Hér í þessu máli er verið að búa til eitthvert millibilsástand sem gæti komið niður á skilvirkni þegar við þurfum einmitt á því að halda að stjórnsýslan sé skilvirk varðandi nýsköpunarstyrki ýmiss konar. Alla vega tala stjórnvöld þannig að það sé nýsköpunin sem eigi að koma okkur upp úr kreppunni og ég held að allir þingflokkar hafi tekið undir það með stjórnvöldum. En ég vil spyrja hv. þingmann sem landsbyggðarþingmann hvernig honum lítist á það hvernig ákveðið er að koma fyrir stuðningi við nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins. Ég vil jafnframt spyrja hann hvort það hefði kannski verið skynsamlegra í þessari stöðu og bara betra, í staðinn fyrir að setja upp enn einn sjóðinn til þess að sækja í fyrir fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins og vill stofna til nýsköpunarverkefna, að styrkja myndarlega sóknaráætlanir landshluta. Kæmi það ekki að betri notum þegar upp er staðið?