151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[19:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum í dag um þetta frumvarp, sem er nú komið til þingsins til 2. umr., þá hefur það verið gagnrýnt harðlega og ég leyfi mér að taka undir þá gagnrýni. Ég ætla ekki að fara yfir álit 1. minni hluta, en undir það skrifa hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson. Þau hafa bæði talað hér í umræðunni í dag og dregið fram það sem þeim finnst vera ábótavant við þessar breytingar og hvernig að þeim var staðið. Þó vil ég sérstaklega nefna það sem þau benda á, að þessi tímapunktur er afskaplega óheppilegur til að vera með óvissu í kerfinu, enda hefur sjaldan verið jafn mikil þörf fyrir stuðning við nýsköpun og frumkvöðlastarf í landinu, segja þau í sínu nefndaráliti. Og þau halda áfram, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti átelur í því samhengi hversu langt ráðuneytið hefur gengið í að leggja stofnunina niður áður en vilji og samþykkt þingsins liggur fyrir sem gerir það að verkum að erfitt er að taka skref til baka, hverfa frá ákvörðuninni og hefja vegferðina á réttum byrjunarreit.“

Þetta er alvarleg gagnrýni á framkvæmdarvaldið sem bíður ekki eftir fyrirmælum frá löggjafarvaldinu, en framkvæmdarvaldið starfar auðvitað í umboði þingsins og á að framkvæma það sem þingið segir því að gera en ekki öfugt. Það má gagnrýna þetta og síðan ýmislegt annað, m.a. hvernig farið er með stuðning við landsbyggðina og að það skuli vera búið til eitthvað nýtt áður en gengið er úr skugga um að það sé betra en það sem fyrir er.

Í andsvörum mínum fyrr í dag minntist ég á bækling sem er til í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var saminn að mig minnir árið 2008, þó getur verið að ég fari ekki rétt með það ártal. Í þeim bæklingi eru leiðbeiningar um hvaða ferli þarf að fara í gang þegar sameina á stofnanir eða þegar flytja á verkefni á milli stofnana eða leggja niður stofnanir og hvernig á að haga sér í því ferli. Þar kemur afskaplega skýrt fram að gæta þurfi þess að breytingin sé vel undirbúin. Ég held að það sé augljóst mál að undirbúning skortir sannarlega í því verkefni sem við ræðum hér. Fyrsta skrefið samkvæmt bæklingnum ágæta ætti að vera að setja hóp í að gera frumathugun áður en ákvörðun er tekin. Það þurfi að fjalla vel um stöðuna eins og hún er, greina hana og kanna kostina og gallana og síðan móta framtíðarsýn þar sem gallarnir eru auðvitað lágmarkaðir en lyft undir kostina og bætt úr. Það þurfi síðan að setja skýr markmið með breytingunni og velja viðmiðanir. Það finnst mér svo mikilvægt, að einhverjar viðmiðanir séu settar niður í breytingaferlinu þannig að hægt sé að líta til baka og meta hvort vel hafi tekist til. Síðan þarf auðvitað að skoða valkosti vel, stilla upp valkostum og athuga þá, sem skortir í þessu frumvarpi, og skoða hvort gera þurfi miklar breytingar eða hvort það megi bæta það sem fyrir er. Það þarf að greina hindranir og fjalla um álitamálin.

Síðan er talað um það í þessum ágæta bæklingi að mikilvægt sé að varast að skapa óvissu og það þurfi að huga að mannlega þættinum. Allir þingflokkar hljóta að þekkja það hvers lags óvissu þessi breyting og upptakturinn að henni hefur skapað úti um allt land. Á sumum stöðum er starfsfólk Nýsköpunarmiðstöðvar lykilstarfsfólk í kannski stærra samhengi í sveitarfélögunum og er límið í ákveðinni starfsemi og skiptir mjög miklu máli. Sú starfsemi hefur verið lengi í uppnámi af því að fólk hefur ekki vitað hvert þessi breyting átti að leiða. Það er ekki lausnin, forseti, hjá hæstv. ráðherra að fara þá í að gera breytinguna áður en Alþingi hefur fjallað um hana og fjallað um lagaumgjörðina.

Í bæklingnum segir að til að auka samstöðu starfsfólks með breytingunum sé afar mikilvægt að vekja sem mestan áhuga á framtíðarsýninni, sem skortir reyndar í þessu máli, og þeim markmiðum sem stefnt er að.

Herra forseti. Nýverið var samþykkt hér frumvarp um að breyta Neytendastofu, færa verkefni frá Neytendastofu til m.a. Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og fleiri stofnana. Hér er einnig verið að færa verkefni. Eftir stendur Neytendastofa sem einhvers konar örstofnun sem á bara að gæta neytendaréttarákvæða, tímabundið, ef marka má greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var á dögunum. Það eru örfáir starfsmenn eftir. Í greinargerð með því frumvarpi fengu starfsmennirnir sem þó verða eftir þau skilaboð að leggja ætti störf þeirra niður.

Þetta segir mér að hæstv. ráðherra neytendamála, sem er jafnframt ráðherra nýsköpunar, hafi ekki flett þessum bæklingi. Hún hafi ekki gætt nægilega vel að því að það þarf að undirbúa slíkar breytingar vel og vandlega, setja sér markmið, setja sér viðmið og framtíðarsýn og gæta að mannauðnum.

Forseti. Þessi ríkisstjórn hefur ekki verið mjög afkastamikil. Það er kannski skiljanlegt þar sem við og stjórnvöld höfum nú verið að glíma við heimsfaraldur í ár og starfsaðstæður í þinginu hafa hamlað ýmsu þannig að um tíma var bara talað um sérstök Covid-mál. En þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin ekki slegið slöku við þegar leggja á niður eftirlitsstofnanir og gera breytingar, eins og við erum að tala hér um, umgjörðina um nýsköpunarstarfsemi á landinu.

Ég vil nefna nokkur mál. Það var að vísu fyrir heimsfaraldur sem Fjármálaeftirlitinu var rennt undir Seðlabankann. Það var gagnrýnt mjög en við gátum þó, minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, komið á ákveðnum breytingum, m.a. að erlendir aðilar meti það, þegar ákveðin reynsla er komin á þessa breytingu, hvort hún hafi tekist vel til og hvort gera þurfi frekari breytingar. Það var líka frumvarp fyrir rúmu ári, áður en heimsfaraldur skall á, um að veikja Samkeppniseftirlitið til muna. Þar náðum við líka að forðast að gera stærstu og mestu breytingarnar, minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar, en eftir stóð þó að stórir samrunar eru leyfilegir án tilkynningar. Það er sérstaklega slæmt núna í þessu ástandi þegar svo mörg ferðaþjónustufyrirtæki eru í vandræðum. Ferðaþjónustan hefur blómstrað úti um landið í litlum fjölskyldufyrirtækjum og aukið fjölbreytileikann og blásið lífi í byggðirnar. Hættan er sú að stórir aðilar yfirtaki starfsemina og það er enginn að fylgjast með því. Það þarf ekkert að tilkynna það og meira að segja geta stórir samrunar átt sér stað án tilkynningar, eins og ég sagði áðan.

Síðan kemur að Neytendastofu, eins og ég sagði frá hér fyrr í ræðu minni. Helsta markmið með þeim gjörningi öllum var að fækka ríkisstofnunum. Það var ekki hagur almennings, hagur neytenda, heldur að fækka ríkisstofnunum. Þar voru verkefni tekin og sett undir t.d. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem eru bara alls ólík því sem fyrir er í þeirri stofnun. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum þeim verkefnum mun reiða af. Eins og ég benti á í andsvari áðan þá er enn verið að setja verkefni á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Neytendastofa sér um eftirlit sem varðar hag okkar neytenda og í stað þess að tína út úr stofnuninni og draga úr henni tennurnar ætti auðvitað að setja kraft í að móta stefnu í málefnum neytenda á Íslandi, kallað hefur verið eftir slíkri stefnu í áraraðir. En hagur almennings, hagur neytenda, er ekki undir þegar hæstv. ríkisstjórn er að vinna sín verk heldur er það sparnaður. Þau vilja geta sagt: Við erum búin að fækka ríkisstofnunum um svo og svo margar og telja það vera eitthvert stórkostlegt afrek. Mér finnst vera meira afrek að setja sterkar stoðir undir hag almennings og neytenda í landinu, en það er sem sagt ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar.

Forseti. Síðan vil ég nefna að búið er að afgreiða frá efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp um að renna skattrannsóknarstjóra undir ríkisskattstjóra. Þar eru alls konar breytingar sem ég tel vera mjög varhugaverðar, breytingar sem munu milda refsingar við skattsvikum. Fleiri mál eiga að sæta bara fjársektum og færri fara í ákæruferli. Ég tel augljóst að með þeirri aðgerð sé verið að draga úr tennurnar úr skattrannsóknum á Íslandi þegar við þyrftum að styrkja þær enn frekar. Það er sama markið þarna, að fækka ríkisstofnunum. Heitið á því frumvarpi er tvöföld refsing, en það er auðvitað hægt að taka á þeim vandamálum sem varða tvöfalda refsingu algerlega án þess að breyta stofnanamynstrinu. Við munum væntanlega ræða það frumvarp í næstu viku eða fljótlega eftir páska.

Í þetta hefur ríkisstjórnin verið að setja krafta sína, að draga tennurnar úr eftirlitsstofnunum, mikilvægum eftirlitsstofnunum, sem gæta hag almennings og rugla í utanumhaldi um nýsköpun, akkúrat á þeim tíma þegar við þurfum mest á því að halda að stjórnsýslan og umgjörðin í kringum nýsköpunina sé styrk. Stjórnvöld hafa verið að setja aukna fjármuni til nýsköpunar. Og þó að við í Samfylkingunni hefðum viljað sjá krónurnar fleiri í þau verkefni þá gleðjumst við samt sem áður yfir þeirri áherslu að bæta í nýsköpunina. En það er samt þannig, forseti, að allt er gert einhvern veginn til bráðabirgða og til skamms tíma. Frumkvöðlar sem fara út í nýsköpunarverkefni þurfa svolítið að geta séð fram í tímann og fara kannski ekki af stað ef þeir vita að stuðningur getur bara staðið í tvö ár eða svo.

Ég vil í lok ræðu minnar taka enn og aftur undir gagnrýni sem kemur frá 1. minni hluta. Það er ýmislegt í nefndaráliti 2. minni hluta sem einnig er hægt að taka undir þannig að minni hlutinn í þinginu er gagnrýninn á þetta frumvarp, vægast sagt, og hefur komið með athugasemdir um hvernig betur hefði mátt standa að þessu verkefni.

Rétt í lokin vil ég lesa niðurlagið í nefndaráliti 1. minni hluta, sem er svona, með leyfi forseta:

„Eðlilegra hefði verið að gera úttekt á starfsemi stofnunarinnar í samhengi við reynslu annarra þjóða og að til grundvallar hefði legið dýpri skilningur á eðli nýsköpunar og stuðnings við flókið vistkerfi nýsköpunar. Því miður hefur það lengi viljað brenna við á Íslandi að við ákvarðanatöku skortir bæði á eftirfylgni og mat á afleiðingum ákvarðana eins og bent hefur verið á í nokkrum erlendum úttektum.“

Svo segir í nefndarálitinu að lokum þetta:

„Sú ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð án þess að neitt komi í staðinn skapar einmitt hættu á slæmri og ómarkvissri meðferð opinbers fjármagns.“

Forseti. Ég er í rauninni afskaplega hissa á því að stjórnvöld skuli á þessum tímum, í djúpri atvinnukreppu þegar við þurfum sannarlega að reiða okkur á nýsköpun, hvort sem það er í ríkisrekstri eða í öðrum atvinnurekstri, að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra nýsköpunarmála skuli haga sér með þessum hætti þegar kemur að umgjörð um þessi mikilvægu mál.