151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[13:55]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Í dag er dagur Norðurlanda og ástæða til að minnast þess og það gerði hæstv. forseti í upphafi fundar. Þetta er merkilegt samstarf sem Norðurlöndin eiga með sér og ástæða til að halda því vel á lofti. Nú um stundir höldum við því á lofti á Norðurlandavísu hvernig við getum mætt auknum kröfum um samvinnu og sameiginlegar lausnir. Það kallast á með einum eða öðrum hætti við umfjöllunarefnið hér í dag, frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun.

Við verðum að hafa hugfast að til að skapa öflugt og nútímalegt velferðarsamfélag sem er undir það búið að taka á móti áskorunum framtíðar þurfum við marga nýja sprota og gefa þeim færi á að blómstra og dafna eða þess vegna að falla í gleymsku, það verða ekki allir sprotar að fallegum blómvendi. Við þurfum að vera tilbúin að gera tilraunir sem kannski heppnast ekki allar. Það er eðli nýsköpunar. Við þurfum að skapa andrúmsloft og menningu sem ýtir undir nýsköpun með öllum ráðum. Hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur fjallað um það og látið hafa eftir sér að nýsköpun sé ekki lúxus, ekki munaður, hún sé okkur lífsnauðsyn. Það er hárrétt og þessum orðum þurfa að fylgja efndir og þessum orðum þurfa að fylgja aðgerðir og við þurfum að vanda okkur vel og skapa trygga umgjörð.

Nútímaleg fyrirtæki í öllum atvinnugreinum gera sér grein fyrir nauðsyn þess að stunda nýsköpun og þróun. Það er sjálfsagður hluti í daglegum störfum í rauninni. Þetta á jafnt við um hreinræktuð vísindafyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki sem og fyrirtæki í verslun, iðnaði, þjónustu og í skapandi starfsemi. Það er enginn efi á því að öflug og samfelld fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun bætir samkeppnishæfni þjóða eins og hinnar litlu íslensku þjóðar til að leysa þau stóru verkefni sem þegar blasa við í nútíðinni, svo ekki sé talað um það sem við getum skyggnst inn í hina óræðu framtíð.

Við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar. Það gildir einu hvort um er að ræða rannsóknir eða nýjar lausnir í umhverfismálum, orkumálum, samgöngumálum eða heilbrigðismálum. Það þarf að hvetja einstaklinga, ég segi einstaklinga, til að þróa eigin hugverk yfir í verðmæta afurð. Hjá einstaklingunum verða fræin til. Frumkvöðlar eiga það flestir sameiginlegt að eiga ekki peninga heldur aðeins góðar hugmyndir, einhver drög kannski, og eldmóð. Það er mikilvægt að ungt og vel menntað fólk eigi þann möguleika að hasla sér völl og skapa sér starfsvettvang í rannsókna- og nýsköpunarstarfi hér á landi. Til þess þarf að skapa forsendur, öruggt skjól og svigrúm við hæfi. Við þurfum að tryggja að nýsköpun og sprotastarfsemi geti fengið tækifæri til að eflast um allt land.

Landshlutasamtökin hafa lýst yfir miklum áhyggjum um hvað taki nú við við þessar kringumstæður þegar nýtt frumvarp er komið fram og Nýsköpunarmiðstöðvar nýtur ekki lengur við. Af hálfu landshlutasamtakanna hefur komið skýrt fram að þau telja að áformin sem birtast í frumvarpinu séu ekki sett fram með nægilega skýrum hætti og fókusinn sé ekki skarpur. Það séu gríðarlegir hagsmunir undir í því að skapa öflugt stuðningskerfi við nýsköpun á landsbyggðinni. Kallað er eftir því að efla grunnstoðir nýsköpunar með sveigjanlegu stuðningskerfi og sterkum tengslum við akademískt umhverfi, atvinnulíf og þá sem hagsmuna eiga að gæta. Þetta sé allt fremur óljóst eins og frumvarpið er fram sett.

Já, það er því miður ekki að finna sterka sýn á framtíð nýsköpunar á Íslandi í frumvarpinu sem nú liggur fyrir. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar er fyrst og fremst verið að bregðast við þeirri ákvörðun ráðherra að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og koma á fót Tæknisetri Íslands sem einnig er umfjöllunarefnið. Uppbygging á tæknisetri er vitaskuld framfaraskref en setrið fer með þrengri skyldur en Nýsköpunarmiðstöð. Nýsköpun gerist í öllum geirum. Háskólar eru sem dæmi drifkraftar nýsköpunar og þekkingar en á sama tíma verður að gæta að umhverfi þar sem frumkvöðlar og sprotafólk er að störfum sem ekki hefur notið skilgreindrar háskólamenntunar því að hugvitsmenn, hugvitskonur, hugvitsfólk sprettur upp úr alls konar jarðvegi. Það er vandi að virkja þessa krafta, vandi að vinna úr því og við þurfum að skapa umgjörð sem gerir þessu fólki kleift að hasla sér völl.

Á Íslandi eru sjö háskólar víðs vegar um landið. Aðkoma háskóla á landsbyggðinni í þessu verkefni sem hér er boðað er óskýr. Nýsköpunarstefna þarf sem sagt um leið að vera félagsleg. Hún er leið til að opna og skapa nýja sýn, nýja eftirspurn. Nýsköpunarstefnan þarf að koma frá fólki sem er meðvitað um að nýsköpun er ekki einkaeign þeirra sem hafa aðgang að peningum atvinnulífsins eða háskólanna einna. Hún þarf að vera hluti af daglegri menningu okkar og raungerast á heimilum í sveitum landsins, í borginni, í grunnskólum, hjá hinu opinbera og hjá einkaaðilum, í öllu þessu.

Herra forseti. Nýsköpunarmiðstöð heyrir nú sögunni til og spurt er: Til hvers hafa nú refirnir verið skornir? Það er stórt spurt. Í hvaða tilgangi er heil og rótgróin stofnun lögð niður með manni og mús, sundrað í frumeindir? Svörin virðast nokkuð óljós og vera á reiki. Í greinargerð frumvarpsins bregður fyrir setningum á borð við þá að nauðsynlegt sé að draga úr yfirbyggingu og auka sveigjanleika þannig að opinbert fé nýtist sem best til úthlutaðra verkefna. Þetta eru góð og gild rök, góð og gild orð, en standast þau, halda þau vatni? Það hafa margir umsagnaraðilar um þetta frumvarp sett verulega fyrirvara við þessa sýn og telja þetta ekki standast. Ný lagasetning hefur í för með sér tilfærslu á vinnu sem hið opinbera á að sinna eða ætti að sinna og þetta sé sett yfir á herðar annarra og það með talsvert óljósum og tilviljanakenndum hætti. Þetta mun einfaldlega hafa þær afleiðingar að þróunarverkefnum sem krefjast mikillar tækniþekkingar og þróunar mun hugsanlega fækka. Bent er á að stuðningur við hugmyndir og verkefni eða verkefnadrög í formi þekkingar, að leggja til rannsóknarinnviði eða -aðstöðu og stytta ferla til upplýsinga sé ódýr og nauðsynleg leið til að íslenskur iðnaður og háskólar og einkaaðilar nái þeim markmiðum að skapa verðmæti, skapa nýtt umhverfi, skapa forsendur til að við getum haldið áfram, haldið í við þau lönd sem eru helst í nágrenni okkar. Ég nefndi Norðurlöndin áðan sem hafa fyrirkomulag sem er að mörgu leyti mjög til fyrirmyndar.

Herra forseti. Áhyggjur vegna niðurlagningar Nýsköpunarmiðstöðvar eru viðvarandi því að ekki er ljóst hvað tekur við. Við erum þarna með fræin og við megum ekki kasta þeim í grýtta jörð, kasta þeim á dreif. Þarna liggja tækifærin okkar ótal mörg og takmörkin eru bara hugmyndaflugið, hugkvæmni, sköpunarkrafturinn. Og sem betur fer eigum við djarfa frumkvöðla og hugsuði sem margir hverjir þurfa skilning og stuðning. Sá stuðningur er enn ekki tryggður og enn síður nú þegar yfirsýn tapast hugsanlega. Þessir fjárvana aðilar, fullir af hugmyndum, þurfa fyrirgreiðslu varðandi umsóknir um styrki og þar eiga stjórnvöld að koma að með virkum hætti og ekki láta hendingu ráða. Það er mikið í húfi. Styrkir eru margvíslegir og ekki bara innan lands heldur kannski fyrst og fremst erlendis því að góðar hugmyndir flæða yfir öll landamæri. Það er vandasamt að sækja um, búa út góðar umsóknir og það er raunar komið svo að það er á valdi fagfólks að sækja um og búa út góðar umsóknir sem skila árangri. Þar eigum við líka gott fólk að störfum en við þurfum að skapa þann möguleika að við getum virkjað þessa aðila saman.

Herra forseti. Það er verið að leggja niður þjónustu gagnvart frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum sem eru að taka sín fyrstu skref án þess að skýr mynd hafi verið dregin upp og vandaðar greiningar liggi að baki en ekki bara einhver draumsýn, ég segi nú kannski ekki einhver pólitísk hugmyndafræði. Þeir aðilar sem um er að ræða hafa ekki efni á því að borga háar upphæðir fyrir ráðgjöf og aðstöðu og þetta má með engu móti verða til þess að færri nýsköpunarfyrirtæki verði stofnuð. Um það veit svo sem enginn en við gætum misst af tækifærum engu að síður.

Herra forseti. Það er margt sem stingur í augu. Hvaðan er sú hugmynd eiginlega komin að loka Nýsköpunarmiðstöð, rótgróinni, fullstarfandi, í miðri efnahagskreppu? Og það er gert án þess að hafa algerlega skothelt plan og standa að öllu leyti vel að vígi og að ráðherra sé búinn að tryggja það að hafa vaðið fyrir neðan sig en hugsanlega ekki fyrir ofan sig. Hver er hinn beini peningalegir ávinningur af því að fella Nýsköpunarmiðstöð í heilu lagi af grunni sínum? Hann hlýtur að vera umtalsverður, það hlýtur að vera krafan að hagkvæmnin sé einhver fjárhagslega og að hún sé skýr, að það sé skýrt og augljóst.

Í gögnum ráðuneytisins kemur fram að bein framlög úr ríkissjóði til Nýsköpunarmiðstöðvar séu nú rúmlega 700 millj. kr. árlega. Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins annars vegar vegna lokunar stofnunarinnar og verkefna hennar sem flytjast í annað form verði 655 millj. kr. á árinu 2021. Þar af er lokunarkostnaður um 305 millj. kr. Hvað framhaldið áhrærir veit enginn, það er allt skrifað meira og minna í skýin.

Það er mikilvægt að halda þeirri staðreynd á lofti og hún kann að vera augljós og að ekki þurfi að færa það í orð að starf á borð við Nýsköpunarmiðstöð er ekki bara kostnaður. Eins og komið hefur fram er starfið og verkefnið í eðli sínu fjárfesting í hugmyndum og drögum að verkefnum sem ætlað er að aukast að verðmæti, gerjast og þróast í umfjöllun og smita út í allt samfélagið. Þess vegna hefur nýsköpunarstarfið og Nýsköpunarmiðstöð sannarlega samfélagsverðmæti. Síðan þegar vel tekst til með verkefni þá skapar það auðvitað fjölmörg störf. Það eru yfirleitt vel metin og góð störf. Sem dæmi má nefna að frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar hefur alið af sér fjölda sprotafyrirtækja. Í dag eru líklega um 400 þeirra enn starfandi og velta líklega samtals tugmilljörðum króna á hverju ári.

Á landsbyggðinni er unnið að nýsköpun og annarri atvinnustarfsemi mjög víða af þeim krafti sem gefst. Best þekki ég auðvitað til í mínu kjördæmi þar sem tækniþekking er víða á háu stigi og fyrirtæki hafa vaxið upp úr því að vera sprotafyrirtæki í það að vera með hátæknistarfsemi á alþjóðavísu. Öll atvinnustarfsemi úti á landi berst þó við að halda í við samkeppni á höfuðborgarsvæðinu og raunar einnig langt út fyrir það, á heimsvísu. Allir aðdrættir og aðföng eru kostnaðarsamari úti um landið vegna hárra flutningsgjalda og millifraktflutninga, hvort sem það er á sjó og landi, og þar er ein birtingarmynd. Það er ólíkt hlutskipti að fást við nýsköpun og vísinda- og þróunarstarf á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Það er þó algjört lykilatriði að sprotar fái að dafna að þessu leyti um landið allt.

Flest sprotafyrirtæki hafa á einhverju stigi notið fyrirgreiðslu og stuðnings, fengið styrki til rannsókna og þróunar eða fengið aðra fyrirgreiðslu, fyrst og fremst af hálfu Nýsköpunarmiðstöðvar. Í flestum tilvikum vitna þeir sem starfa á landsbyggðinni um að á þá halli í flestum tilvikum. Þeir virðast eiga erfiðara uppdráttar að afla sér styrkja til þróunarstarfa og nýsköpunar. Sumir segja að trúverðugleiki þeirra sem starfi á landsbyggðinni sé jafnvel ekki sá sami og þeirra sem starfa nær þeim sem veita styrkina, þeir eru þeim sýnilegri, kunnugri. Traust og trú á verkefni úti um landið vanti. Oft sé um huglæga þætti í umsóknum að ræða og þá geti þetta skipt máli.

Herra forseti. Opinberum starfsmönnum hefur fækkað á landsbyggðinni og það nær líka til þessa geira. Nú er t.d. Nýsköpunarmiðstöð fallin sem hefur stutt lítil sprotafyrirtæki með þekkingu og leiðbeiningum varðandi rannsóknarstyrki sem hefur slegið talsvert á þennan aðstöðumun. Það skal ekki neitt undan dregið varðandi það. Aðstöðumunurinn birtist líka í miklum ferðakostnaði þegar leita þarf sérfræðiþekkingar til lykilstofnana hér syðra eins og mun nú líklega verða. Þeir sem starfa á þekkingarsetrum úti um landið, en þau eru nokkur, benda á að ekki virðist gert ráð fyrir neinni aðkomu ríkisins að rekstri innviða og þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins heldur séu kynnt í greinargerð með frumvarpinu áform um aukningu á fjármunum til verkefnasjóðs. Bent er á að eitt af því sem brýnast sé varðandi stuðningskerfi nýsköpunar á landsbyggðinni sé einmitt festa í rekstri innviða nýsköpunar og frumkvöðla og það verði að gerast á nokkrum stöðum um landið. Sú festa náist ekki með því að stofnsetja enn einn samkeppnissjóð sem sveitarfélög eða landshlutasamtök eigi svo að sýsla með og útdeila í tímabundin og afmörkuð verkefni. Það sem þarf er föst og regluleg þjónustu og aðstaða á landsbyggðinni fyrir atvinnulíf, frumkvöðla og almenna íbúa á hverju svæði.

Það er gríðarlegt atriði, herra forseti, að við náum að fjölga fólki með sérfræðiþekkingu á landsbyggðinni, breikka þekkingargrunninn og efla möguleikana til að sækja um rannsóknarstyrki og landa þeim í höfn. Þetta er hörð barátta. Fjármunir eru takmörkuð auðlind. Þarna gegna þróunarsetur og nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar úti um landið lykilhlutverki, virka hreinlega eins og bræðslupottar fyrir hugmyndir og nýsköpunarverkefni. Hér þurfum við að sækja fram og hika hvergi.

Ef litið er á framlög ríkisins til nýsköpunar sem hlutfall af opinberum útgjöldum sést bersýnilega hvernig stuðningurinn hefur sveiflast eftir mismunandi áherslum síðustu ríkisstjórna. Styrkirnir hafa því verið sveiflukenndari hér en annars staðar á Norðurlöndum þar sem þeir haldast stöðugir milli ríkisstjórna og taka ekki skjótum breytingum. Það er mjög mikilvægt. Það er merkilegt til þess að hugsa að á árunum 2009–2013 náðum við ákveðnu hámarki á mjög krefjandi og krítískum tíma í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Við höfum ekki enn fyllilega náð vopnum okkar en erum þó að nálgast meðaltal Norðurlandanna.

Herra forseti. Varðandi þetta frumvarp er það skoðun þess sem hér stendur að fram hafi verið farið með offorsi án þess að stóru hagsmunirnir hafi verið hafðir sem leiðarljós, að styrkja grundvöllinn, styrkja umgjörðina. Hér hefur sú leið verið valin án vandaðrar greiningar að taka stórar ákvarðanir af lausung. Hér virðist eins og kylfa sé látin ráða kasti.