151. löggjafarþing — 73. fundur,  24. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[21:02]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á að segja að mér þykir þessi fjármálaáætlun, þetta stefnuplagg ríkisstjórnar þriggja flokka sem hafa lýst þeim ásetningi sínum að halda samstarfinu áfram eftir næstu kosningar, komist þeir upp með það, vera ansi efnisrýr. Í þessu plaggi er framtíðarsýnin fjármögnuð, stefnumörkun 35 málefnasviða, en þessi stefnumörkun er óbreytt frá því að ríkisstjórnin lagði síðustu fjármálaáætlun fram síðasta haust. Mér finnst erfitt að skilja hvernig ný stefna í málaflokkum hæstv. félagsmálaráðherra getur ekki tekið mið af þeim nýju áskorunum sem fólk stendur frammi fyrir og langar til að vita af hverju það er. Ég er ekki að tala um aukningu fjármuna hér heldur stefnumörkunina sjálfa, af hverju sú reynsla sem við búum núna yfir eftir eitt ár, áhrifin á líðan fólks, áhrifin á samfélagið, skuli ekki hafa kallað á einhverja stefnubreytingu sem skilar sér inn í þetta plagg. En gott og vel. Tölum líka um það sem fyrir er. Ráðherra hefur verið að kynna í fjölmiðlum kerfisbreytingu í þjónustu við börn og fjölskyldur. Góð og mikilvæg kerfisbreyting. Mig langar til að fá ráðherra til að fara aðeins í gegnum það hvernig sú breyting er fjármögnuð í fjármálaáætlun. Ég spyr vegna þess að í umsögn Reykjavíkurborgar um málið segir, með leyfi forseta:

„Fyrirhugað verkefni, verði það að lögum, mun verða umfangsmikið og kostnaðarsamt fyrir sveitarfélög og því nauðsynlegt að tryggja sveitarfélögum fjármögnun þess með nýjum tekjustofnum til frambúðar.“

Og lokaorðin í jákvæðri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru þessi, með leyfi forseta:

„Margt er þó enn þá óljóst um útfærslu verkefna, fjármögnun og innleiðingu en lykilatriði er að virk samvinna náist þvert á ráðuneyti og þvert á stjórnsýslustig.“

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann sáttur við fjármögnun þessa risaverkefnis eins og það lítur út í fjármálaáætlunin sem við ræðum núna? Það hafa fjölmargir umsagnaraðilar sem eru jákvæðir lýst yfir efasemdum um að þetta dugi til, svo ég orði það nú ekki sterkar (Forseti hringir.) og mig langar til að vita hver afstaða ráðherra er til afgreiðslu þessa máls í því plaggi sem við ræðum núna.