151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

málefni barna.

[13:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á Íslandi er stéttaskipting og hún bitnar hvað verst á börnum. Tökum dæmi um tvö börn. Annars vegar er það barn sem býr áhyggjulaust heima hjá foreldrum sínum og er í góðum málum. Hitt barnið býr heima hjá einstæðu foreldri með örorku og lifir við andlegar og fjárhagslegar áhyggjur. Áhyggjulausa barnið getur haldið áfram að búa heima og stundað framhaldsnám án þess að taka námslán og getur valið á milli háskóla án þess að hafa áhyggjur af kostnaði. Það þarf ekki að vinna samhliða námi og getur leitað til sálfræðings ef andleg líðan versnar, þökk sé fjárhagslegum stuðningi frá foreldrum, og getur jafnvel útskrifast í lokin og fengið fjárhagslegan stuðning frá foreldrum sínum til að kaupa sína fyrstu íbúð. Barnið með andlegu og fjárhagslegu áhyggjurnar þarf að velja á milli þess að flytja að heiman eða búa heima þegar það nær 18 ára aldri og getur ekki sótt nám í einkareknum háskóla vegna hærri námsgjalda. Heimilisuppbótin fellur niður þegar barnið nær 20 ára aldri og ráðstöfunartekjur foreldra skerðast umtalsvert ef það heldur áfram að búa heima. Auk þess fellur barnalífeyrir niður við 18 ára aldur, eða 20 ára aldur ef barnið er í fullu námi. Það þarf að treysta á námslán í gegnum allt háskólanámið og má búast við alvarlegum fjárhagslegum afleiðingum ef það fellur á prófum og hefur ekki efni á að leita stuðnings hjá sálfræðingi ef andleg líðan versnar, þarf að vinna samhliða námi á veturna og hefur því minni tíma til einbeita sér að náminu.

Telur ráðherra það sanngjarnt að tækifærum barna á Íslandi sé svo misskipt eftir því hversu vel stæðir fjárhagslega foreldrar þeirra eru? Telur ráðherra eðlilegt að börn einstæðra öryrkja þurfi að flytja út svo foreldrar þeirra verði ekki fyrir verulegum tekjuskerðingum? Er það sanngjarnt að börn fátæks fólks þurfa að skuldsetja sig og einnig vinna samhliða námi til að geta náð sér í háskólagráðu? Er það ekki jafnrétti og eðlileg krafa að börn fái að búa áhyggjulaus heima hjá foreldrum sínum á meðan þau stunda nám, að börn þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni, hvað þá foreldra sinna, á meðan á námi stendur, eins og önnur börn?