151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

framlög til loftslagsmála.

[13:24]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt að stuðningur við orkuskipti fari lækkandi. Þegar við horfum til næstu tíu ára þar sem ríkisstjórnin stefnir á að milljarði árlega verði varið aukalega til loftslagsmála, þá fara 3 milljarðar af þessum 10 til orkuskiptanna. Það er hrein viðbót við það sem er í dag. Þannig að ekki er hægt að segja að það sé lækkun. Því er hins vegar misjafnlega dreift yfir tímabilið, sem er skynsamlegt vegna þess að við viljum leggja aukna áherslu á það sem er að gerast núna til þess að geta ýtt undir orkuskipti í þungaflutningum, sem er næsta stóra verkefnið hjá okkur, og áframhaldandi orkuskipti, ekki síst þegar kemur að bílaleigum, sem getur haft margfeldisáhrif út í samfélagið. Það sem hér er verið að kynna er fyrst og fremst gríðarlega ánægjuleg aukning til loftslagsmálanna. Við hljótum að geta verið sammála um að það er til framdráttar íslensku samfélagi. Ég treysti því að þegar kemur að því að taka ákvarðanir um ívilnanir (Forseti hringir.) sem fara lækkandi eftir árið 2024, verði þær skynsamlegar og fari eftir því hvar þörf er á ívilnunum, (Forseti hringir.) hvort sem það verður til fólksbílaflotans eða annarra orkuskipta.