151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:00]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mig langar að halda aðeins áfram með þetta af því að ráðherra hefur á síðustu vikum víða rætt nýja klasastefnu og sömuleiðis höfum við rætt það áður í þingsal. Nú þegar fjármálaáætlunin liggur fyrir vil ég spyrja ráðherra hver staðan sé á innleiðingu klasastefnunnar. Mun ráðherra gera ráð fyrir fjármagni til innleiðingar á stefnunni, sem er góð og gæti markað ákveðna leið út úr þeirri stöðu sem nú er uppi? Til að svo megi verða þarf ríkið auðvitað að stíga ákveðin skref í átt að innleiðingu verkefna þótt vissulega verði hitinn og þunginn á herðum þeirra aðila sem velja að starfa saman í klösum. Ég tel mikilvægt að ráðherra svari þessu skýrt.

Herra forseti. Í því samhengi get ég ekki látið hjá líða að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji forsendur þessarar fjármálastefnu vera raunhæfar en nú gerir fjármálaáætlun ráð fyrir að 720.000 ferðamenn komi á þessu ári og alls 1,3 milljónir ferðamanna á því næsta. Telur ráðherra að þessar tölur séu raunhæfar, kannski ekki síst í ljósi þess sem kom upp í gær? Þá er spurning hvort við náum að bæta stöðuna. Þó að við náum að bæta stöðuna hér á landi og ef ríkisstjórnin ákveður þrátt fyrir allt að fylgja eftir breyttum aðgerðum á landamærunum þá er staðan samt sem áður þannig að víða annars staðar er verið að takmarka mjög ferðafrelsi fólks, samanber aðgerðir í Bretlandi þar sem er boðað að íbúar verði hreinlega sektaðir fyrir ferðalög erlendis nema brýna ástæðu beri til.

Því spyr ég, herra forseti: Telur ráðherra raunhæft að staðan eigi eftir að verða svo góð í sumar að hægt verði að taka á móti 720.000 ferðamönnum það sem eftir er ársins og næstum tvöfalt fleirum á því næsta? Ef ekki eru þá ekki forsendur þessarar áætlunar brostnar?