151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[18:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir spurningarnar. Já, ég er hlynntur þessu með því fororði að þetta verði vandað og með gert fjölþættum, samhliða aðgerðum allra aðila, eins og löggæslu, heilbrigðis- og meðferðaraðila, líkt og ég sagði áðan. Ef þetta er gert eins og sagt er í frumvarpinu óttast ég að almenn varnaðaráhrif valdi því — enda hefur það komið í ljós í Portúgal og Hollandi, og það sést á þeim tölum sem ég ætlaði að fara yfir áðan en gafst ekki tími til þess, að neyslan eykst meðal unga fólksins. Og ef neyslan eykst þá eykst fjöldi þeirra sem lenda í alvarlegum fíkniefnavanda, því að það er vitað að það er alltaf ákveðinn fjöldi neytenda sem lendir í alvarlegum fíkniefnavanda. Ef við stækkum þann hóp munum við þurfa að glíma við alvarlegri fíkniefnavanda í landinu. Við verðum að vera í stakk búin til að taka við því og sinna þeim aðilum. Við erum að vaða út á braut, hv. þingmaður, sem ég óttast að leiði okkur í verri vanda vegna þess að við förum kolrangt í þetta. Við ætlum bara að setja þetta fram eitt og sér, að afglæpavæða þetta. Og þessi almennu varnaðaráhrif, um leið og það verður orðið viðurkennt í samfélaginu að maður geti verið með fíkniefni á sér, einhver grömm, þá mun það hvetja til, ýta á og leiða til þess að enn fleiri unglingar og ungmenni munu prufa þessi efni, fólk sem myndi annars ekki gera það og hefur hræðst það og hefur ekki viljað koma nálægt þeim sem eru hugsanlega að prófa þau. Þá fáum við fleiri fíkla. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja þetta ef engar aðgerðir fylgja þessu frumvarpi, sem það virðist ekki gera. (Forseti hringir.) Það fylgja þessu engar aðrar aðgerðir. Ég tel það nauðsynlegt, herra forseti.