151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

fjölmiðlar.

717. mál
[13:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu svo neinu nemi. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Mér finnst þó rétt og skylt áður en málið gengur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að það komi hér fram að ég hef ákveðnar efasemdir um að 18. gr. frumvarpsins standist 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ég tek hins vegar eftir því að það var skoðað sérstaklega í ráðuneytinu og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að tekið hafi verið sérstakt tillit til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sem tryggir að hér verði ekki lögð á almenn ritskoðun. Ég tel að 18. gr. frumvarpsins, um það að hér skuli fjölmiðlaveitum verða skylt að hafa eitthvert ákveðið lágmark á einhverju efni frá einhverjum ákveðnum þjóðum, stangist á við það.

Ég vil a.m.k. vekja athygli nefndarinnar á þessu og óska eftir því að hún skoði það alveg sérstaklega og ítarlega. Það mun ráða a.m.k. minni afstöðu til málsins þegar þar að kemur. Ég hygg að það sé nauðsynlegt fyrir allsherjar- og menntamálanefnd að fá sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar til að fara sérstaklega yfir þetta ákvæði.

Að öðru leyti vonast ég til þess að hv. allsherjar- og menntamálanefnd vinni þetta frumvarp með jafn góðum og skipulegum hætti og hún hefur gert þegar kemur að öðrum frumvörpum.