151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö frumvörp saman, opinberan stuðning við nýsköpun og Tækniþróunarsjóð. Undanfarin þrjú ár hafa framlög til nýsköpunar og rannsóknarsjóða aukist gífurlega, um 70%, og sérstaklega ef horft er til Tækniþróunarsjóðs sem hefur fengið 2 milljarða. Það sem hv. þingmaður kom inn á í síðustu ræðu fellur því ekki að upplýsingum um mikla aukningu í þennan geira í valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur einmitt lagt mikla áherslu á að styrkja og efla nýsköpun og auka framlög í þá sjóði sem hægt er að sækja í til þess að byggja á í þeim efnum, hvort sem er í matvælaframleiðslu, í tæknigeiranum, í ferðaþjónustu eða öðru því sem fellur undir nýsköpun. Nýsköpun er byggð á fjölbreytileika og er ekki eingöngu miðuð við tæknigeirann heldur alla geira atvinnulífsins.

Þetta mál kom inn í atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umr. og óskað var eftir því að farið yrði yfir málefni tækniseturs, fjárhagsáætlun og tekjuöflun. Gert er ráð fyrir að samsetning tekna ELO breytist og á næstu árum verði einn þriðji tekna í gegnum þjónustusamning við hið opinbera, einn þriðji tekna af innlendum og erlendum styrkjum og einn þriðji tekna af þjónustu við atvinnulífið. Við fengum gesti til að fara yfir þetta og fulltrúa úr ráðuneytinu og þar voru einnig til umræðu byggingarrannsóknir og hvernig hægt væri að tryggja samfelldar rannsóknir, halda þeirri samfellu sem nauðsynleg er. Komið er inn á það í frumvarpinu að þær verði tryggðar til næstu tveggja ára þar til sú aðstaða sem þarf til verði byggð upp og að hún verði tilbúin árið 2022.

Það var einnig til umræðu í nefndinni, milli 2. og 3. umr., að á meðan málið hafi verið til meðferðar í þinginu hafi verið undirrituð yfirlýsing ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir hönd þessa óstofnaða félags, tæknisetursins, við rektor Háskóla Íslands og rektor Háskólans í Reykjavík, þ.e. viljayfirlýsing um samstarf tækniseturs og háskólanna sem felur m.a. í sér að háskólarnir leggi fram þann búnað sem þeir eiga hlut í með forvera tækniseturs, þ.e. Nýsköpunarmiðstöð, og að það fari inn í tæknisetur. Eins og við vitum tekur frumvarpið gildi 1. júlí 2021. Því var ýtt aðeins lengra fram á árið til þess að búið væri að undirbúa þessar breytingar sem mest gagnvart öllum þeim sem hlut eiga að máli, starfsfólki, og hvað varðar þá samfellu sem þarf að vera varðandi byggingarrannsóknir og fleiri hluti. Mikið samráð hefur verið haft í þessu máli við þá aðila sem starfa í dag hjá Nýsköpunarmiðstöð. Stór hluti þeirra heldur áfram störfum á þessum vettvangi og búið er að tryggja það sem snýr að kjörum starfsfólks í breytingunum.

Ég vil koma aðeins inn á nýjungar, af því að vítt og breitt hefur verið rætt um þetta mál, en fram fór mikil og góð vinna í samstöðu í nefndinni um að horfa til þeirra umsagna sem bárust og gera breytingar sem þóttu vera til bóta til að bæta frumvarpið enn frekar. Nefni ég þar á meðal nýsköpunargátt, rafræna nýsköpunargátt, þar sem boðið verður upp á almenna ráðgjöf og svör veitt við algengum og sértækum spurningum og tryggt að frumkvöðlar hafi gjaldfrjálsan aðgang að þeirri ráðgjöf á fyrstu stigum, fjármagnað af ráðuneytinu, og í framhaldinu verði slík ráðgjöf skilgreind í reglugerð. Ég tel þetta mjög mikilvægt til að tryggja aðgengi þeirra sem eru að stíga fyrstu skrefin og með þessari stafrænu nýsköpunargátt erum við að feta okkur áfram inn í hinn stafræna heim sem við erum öll á fleygiferð inn í. Það tryggir líka aðgengi fólks vítt og breitt um landið, hvort sem það er í fámennari byggðum, á útnesjum eða hvar sem það er, að slíkum stuðningi og slíkri ráðgjöf og aðgengi sem kannski hefur ekki verið til staðar í dag þar sem fulltrúar frá Nýsköpunarmiðstöð hafa einungis verið á fáum stöðum úti á landi.

Það er líka verið að tala um að samþætta þetta allt byggðaáætlun og ég tel góða viðbót að tryggja það. Við komum einnig inn á þessar byggingarrannsóknir, að þær verði kirfilega tryggðar þar til búið verður að byggja aðstöðu undir tæknisetur varanlega upp og gott samráð og samvinna verði við þá fagaðila sem hafa starfað þar. Tæknisetur tekur að sér mikilvæg verkefni og nýtir sér þekkinguna og mannauðinn sem verið hefur hjá Nýsköpunarmiðstöð en tæknisetur er samt sem áður ekki rannsóknarstofnun heldur vettvangur til að styðja við tækniþróun og atvinnusköpun á sviði tæknigreina. Tæknisetur verði því, ólíkt Nýsköpunarmiðstöð, ekki stofnun með áherslu á eigin rannsóknarverkefni heldur fyrst og fremst vettvangur fyrir tækniþróun í samvinnu við háskólana og atvinnulífið og vettvangur fyrir frumkvöðla og sprota sem eru að koma undir sig fótunum á sviði hátækni.

Kannski er mönnum brugðið, það eru allir hræddir við breytingar þegar um er að ræða stofnanir sem hafa verið starfandi í langan tíma. En ég held að það sé alltaf gott að skoða möguleika á að stokka upp hluti svo að þeir gagnist þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna án þess að missa út þann mannauð og þá þekkingu sem byggst hefur upp á löngu árabili. Ég tel að unnið hafi verið að því. Þetta eru verkefni sem unnið hefur verið að í marga mánuði að reyna að gera sem best. Þær breytingar sem gerðar hafa verið, bæði á vegum ráðuneytisins og í nefndinni — í samvinnu við ráðuneytið og þá fagaðila sem hlut eiga að máli og hafa sem mesta þekkingu á starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar, hafa verið þar um langan tíma — hafa að mínu mati skilað góðum viðbótum við frumvarpið. Það er búið að lögfesta þarna hluti sem ekki voru lögfestir áður, t.d. er búið að lögfesta Fab Lab smiðjurnar og tryggja þeim fjármuni í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Þessi nýsköpunargátt á að tryggja byggingarrannsóknir, tryggja kjör starfsfólks við breytingarnar og fleiri hluti mætti vissulega nefna. En breytingarnar sem hafa verið gerðar eru þó í megindráttum í samræmi við upprunaleg áform. Byggingarrannsóknum verður fundinn vettvangur í tæknisetri, þær verða efldar með sérstökum framlögum í samráði við félagsmálaráðuneytið. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Vegagerðin hafa gefið út að prófanir á byggingarvörum skuli framkvæmdar af faggiltu umhverfi og að eftirlit verði aukið með prófunum. Unnið er að undirbúningi faggiltra prófana hér á landi, bæði hvað varðar prófanir á byggingarvörum og þjónustumælingar á sviði umhverfisvöktunar. Þetta tæknisetur verður stofnað á grundvelli efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og frumkvöðlaseturs Nýsköpunarmiðstöðvar á sviði tæknigreina. Stuðningur við nýsköpun á landsbyggðinni er efldur, m.a. með stofnun Lóu nýsköpunarsjóðs. Nú þegar hafa borist yfir 200 umsóknir í sjóðinn en hann var kynntur til sögunnar í febrúar. Ég tel það vera vitni um að mikil gróska er í nýsköpun á landsbyggðinni. Ráðuneytið hefur ráðið til sín tvo starfsmenn með aðstöðu á landsbyggðinni til að efla stuðning við nýsköpun á landsvísu. Unnið er að því að efla samstarf við byggðaáætlunina og nýsköpun á landsbyggðinni, og gerður hefur verið samningur við átta stafrænar smiðjur í kringum landið. Í þeim samningum felast bæði aukin fjárframlög og skýrari umgjörð um starfsemina. Allt er þetta nú fram á veginn og ég efast ekki um að þeir sem hafa talað hér á undan, burt séð frá úrtöluröddum, vilja nýsköpun í landinu allt það besta. Það geri ég og aðrir sem standa að þessu máli. Menn eru alltaf að taka einhverja áhættu í lífinu við allar breytingar en ég tel þessar breytingar lagðar fram með það í huga að efla og styrkja enn frekar nýsköpun, bæði á vettvangi hins opinbera og líka í atvinnulífinu almennt og aðgengi almennings og frumkvöðla, jafnt á byrjunarstigi og lengra kominna, til að efla og styrkja og þróa fjölbreytileika í atvinnulífinu. Ég er mjög ánægð með það.