151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

trúnaður um skýrslu.

[14:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka fyrirspurn mína til forseta og forsætisnefndar um hvaða almennu vinnureglur eru um trúnað. Ef ég les umræðuna hér rétt þá treysta menn sér ekki til að viðhalda þeim verklagsreglum, þeim trúnaði sem verið hefur. Þá var seinni ábending mín um að menn tækju verklagsreglurnar til skoðunar. Ég vil minna á að hér eru þingmenn meira og minna að tala um þingið og þar af leiðandi þingmenn sjálfa og aðgang þeirra. Skýrslur Ríkisendurskoðunar fjalla gjarnan um einhverja allt aðra en þingmenn og þeir aðilar fá engan aðgang að skýrslunni fyrr en hún er birt. Þeir geta ekki tjáð sig. Ég ætla að segja að mér finnst sérkennilegt ef ég ætti að fara að tala við fjölmiðla um einhverja hluti sem þeir hafa dregið út úr skýrslu sem þeir hafa einhvern veginn komist yfir héðan frá þinginu en ég hef ekki fengið að sjá og get þar af leiðandi ekki tjáð mig, hvað þá stofnun eins og Samgöngustofa, sem mest er fjallað um, eða jafnvel einhverjir einstaklingar úti í bæ. (Forseti hringir.) Það er grafalvarlegt mál að einstakir þingmenn fari út og tali um eitthvað sem þeir hafa fengið aðgang að en engir aðrir. (HVH: Í fjölmiðlum. Aðgang að í fjölmiðlum.)