151. löggjafarþing — 80. fundur,  19. apr. 2021.

rannsókn og saksókn í skattalagabrotum .

373. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er eitt af einkennum hægri stjórna að ráðast að eftirlitsstofnunum og veikja þá aðila sem standa vörð um almannahag. Núverandi ríkisstjórn er þar engin undantekning. Áður en kórónuveiran skall á var hún búin að gera Fjármálaeftirlitið að deild í Seðlabankanum og í kjölfarið var tekið til við að veikja Samkeppniseftirlitið. Við þingmenn Samfylkingarinnar mótmæltum hvoru tveggja og náðum fram umbótum þó að eftir standi breytingar sem ástæða er til að hafa áhyggjur af og þarfnast endurmats hið fyrsta.

Minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd gerði alvarlegar athugasemdir við að of naumur tími hefði verið gefinn til að semja frumvarpið um Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið og taldi óásættanlegt að stjórnarmeirihlutinn kastaði til höndunum þegar smíða ætti umgjörð um eina af okkar mikilvægustu og valdamestu stofnunum. Í umsögn Seðlabankans og á nefndarfundum kom ítrekað fram að naumur tími hefði verið gefinn til smíði frumvarpsins og þurft hefði meiri tíma til að skoða breytingarnar ofan í kjölinn. Öll vandamál sem upp gætu komið hefði þurft að greina og meta og velta við hverjum steini. Verður sjálfstæður Seðlabanki með allt fjármálaeftirlitið sterkara til að takast á við framtíðaráföll? Þeirri spurningu var ekki svarað en minni hlutinn efaðist stórlega um það og lagði til aðrar og öruggari leiðir. Sú sem hér stendur hafði áhyggjur af því að þegar Seðlabankinn væri kominn með viðskiptaháttaeftirlit og eftirlit með einstaka fyrirtækjum í gegnum Fjármálaeftirlitið, þá sem deild í Seðlabankanum, gæti það ógnað orðspori Seðlabankans. Rökin eru þessi: Við þurfum ekki annað en að horfa til þess þegar Seðlabankinn fór með gjaldeyriseftirlitið og síðan deilurnar á milli Samherja og seðlabankastjóra. Allt sem skaðar seðlabankastjórann sjálfan skaðar Seðlabankann því að það skiptir auðvitað öllu máli að við höfum traust á Seðlabankanum og ekki síst þegar hann er orðinn svo stór eins og hann er nú orðinn með þeim breytingum sem ríkisstjórnin hefur gert.

Minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd og hér í þinginu náði fram breytingum og fyrir tilstilli okkar mun á fimm ára fresti verða gerð úttekt á því hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlitsins. Jafnframt skal litið til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs.

En þetta var um Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Þá er það Samkeppniseftirlitið. Sagan sýnir að sterkt og virkt samkeppniseftirlit er nauðsynleg forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og neytendavernd. Á fámennum og litlum markaði þarf að feta stíginn milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni. Flestir markaðir leita í fákeppni og það kallar á öflugt og skilvirkt samkeppniseftirlit þegar þannig háttar til að við erum í litlu kerfi eins og hér á Íslandi. Breytingarnar sem lagðar voru til með frumvarpinu í upphafi báru sannarlega með sér að hagsmunum neytenda hefði ekki verið gefinn nægur gaumur og hið sama átti við um stöðu og vernd minni aðila á markaði. En minni hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd og hér í þinginu kom með andófi sínu í veg fyrir að alvarlegustu breytingartillögurnar í frumvarpinu um Samkeppniseftirlitið næðu fram að ganga. En þrátt fyrir það stóðu eftir breytingar sem stuðla að því að stórir samrunar eru ekki tilkynningarskyldir og mér finnst, herra forseti, það afar slæm breyting og veiking á samkeppniseftirlitinu, einkum í ljósi þess ástands sem nú er á vinnumarkaði með mörg lítil ferðaþjónustufyrirtæki sem munu ekki treysta sér til að fara í gang á ný; það eru merki um að stórir aðilar séu að sölsa undir sig mörg lítil fyrirtæki og stuðla þannig að fákeppni í ferðaþjónustu.

En áfram hélt stjórnarmeirihlutinn í þeirri viðleitni sinni að draga tennurnar úr eftirlitsstofnunum. Þarna var Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið komið. Samkeppniseftirlitið, búið að veikja það. Og þá var tekið til við að veikja Neytendastofu. Neytendastofa var gerð að örstofnun. Frá henni voru flutt verkefni og gefin óljós skilaboð í greinargerð frumvarpsins um að leggja eigi Neytendastofu að fullu niður. Það fór engin vönduð rannsókn eða greining fram í neytendamálum eða verkefnum Neytendastofu áður en frumvarpið var lagt fram og engin hlutlaus úttekt var gerð á starfsemi Neytendastofu eða flutningi verkefna. Íslenskir neytendur hafa löngum verið í veikri stöðu vegna yfirburðastöðu framleiðenda og seljenda vöru og þjónustu og væri full ástæða til að styrkja stöðu neytenda í stað þess að veikja hana eins og gert var með frumvarpinu um Neytendastofu. Hin norrænu ríkin eru með öfluga neytendavernd og mættu stjórnvöld líta þangað eftir fyrirmyndum og skoða vel kosti og galla embættis umboðsmanns neytenda sem hefði valdheimildir. Neytendaréttarsvið gæti verið undir slíku embætti, svo að dæmi sé tekið, en það svið er það eina sem eftir stendur sem verkefni Neytendastofu. Lögin sem samþykkt voru 16. mars verða til þess m.a. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun sinna verkefnum sem eru mörg stór og ólík og með þeim lítil samlegð. Stofnunin veitir húsnæðislán, hefur umsjón með framkvæmd löggildingareftirlits með mælitækjum fyrirtækja og hefur eftirlit með leikföngum og snuðum, svo dæmi séu tekin. Stefna stjórnvalda virðist vera að skera niður fjármuni til neytendamála og fækka stofnunum, allt í nafni hagræðingar. Tilfærslunum fylgir augljós hætta á að neytendamálin tvístrist um kerfið og eftirlitið minnki með tilheyrandi skaða fyrir neytendur.

Forseti. Þetta var sem sagt Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Neytendastofa, það er komið með lögum. Nú erum við að ræða í 3. umr. um að draga tennurnar úr skattrannsóknarstjóra. Það á sem sagt, með því frumvarpi sem við ræðum hér, að leggja embætti skattrannsóknarstjóra niður sem sjálfstæða stofnun og gera skattrannsóknir að deild hjá Skattinum. Til að vinna gegn skattundanskotum höfum við í Samfylkingunni talað fyrir eflingu skattrannsókna og auknu sjálfstæði skattrannsóknarstjóra. Slíkt myndi skila sér margfalt til baka í auknum skatttekjum. Þegar stór og flókin mál koma upp, líkt og rannsókn á Panama-skjölunum og fjárfestingarleið Seðlabankans, hefur embættið liðið fyrir fjárskort og manneklu. Ein leið til að halda embætti niðri er fjársvelti. Önnur leið er hreinlega að leggja embættið niður eins og núverandi ríkisstjórn vill gera.

Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar í þá veru að sekta í stað þess að ákæra í fleiri málum. Með því er verið að milda til muna mat á alvarleika brota og gera refsilaus brot gegn skattalögum sem nú sæta refsingum. Rökin virðast vera að afkastageta hjá ákæruvaldi sé ekki nægileg en þau rök, forseti, geta ekki dugað fyrir slíkum breytingum. Ég er hissa á stjórnarflokkunum að þeir skuli taka slík rök gild í þessum stóra málaflokki. Ég gagnrýni óskýrleika frumvarpsins og að lykilspurningum um hver eigi að rannsaka alvarleg mál sé ekki svarað. Spurningar vakna um hvort ætlunin sé að hverfa frá gildandi fyrirkomulagi þar sem eiginleg rannsókn fer fram hjá skattrannsóknarstjóra og fela hana héraðssaksóknara eða hvort ráðgert sé að hin eiginlega rannsókn verði áfram framkvæmd hjá skattrannsóknarstjóra en undir stjórn eða að beiðni héraðssaksóknara. Óskýrleiki er um viðmið þegar meta á alvarleika mála. Ef miða á við fjárhæð þarf að hafa í huga að þær taka í flestum tilfellum breytingum við rannsókn. Mál sem í byrjun varða lágar upphæðir geta farið að snúast um háar upphæðir og öfugt eftir því hvernig rannsókn vindur fram. Þannig gæti mál flækst á milli embætta með tilheyrandi tvíverknaði, kostnaði og óskilvirkni ef frumvarpið verður samþykkt. Lagt er upp með að ákvörðunarvald í vafamálum, um hvort tilvik heyri undir skattrannsókn eða skatteftirlit, verði í höndum ríkisskattstjóra en ekki skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri bendir á að þarna sé um grundvallaratriði að ræða og forsendur þess sjálfstæðis sem byggt hefur verið undir og tryggt um áratugaskeið. Takmörkun á sjálfstæði embættisins felst einnig í því að starfsemin verði háð ákvörðun ríkisskattstjóra um fjárframlög, mannaráðningar og öll umsvif. Einnig mun ríkisskattstjóri skipa skattrannsóknarstjóra en ekki ráðherra líkt og nú er og Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið, á erfiðara með að hafa eftirlit með því hvort nægum fjármunum sé veitt til rannsókna á alvarlegum skattalagabrotum.

Öll brot gegn skattalögum, óháð alvarleika þeirra, eru nú rannsökuð af sama aðila, þ.e. skattrannsóknarstjóra. Þannig er tryggt að eins sé tekið á öllum meintum brotum og samræmis og jafnræðis gætt við rannsókn og beitingu rannsóknarúrræða. Markmið skattrannsóknar er tvíþætt, annars vegar er hún grundvöllur að endurákvörðun skatta og hins vegar refsimeðferð. Því á sér stað samvinna um mál er varða skattkerfið annars vegar og refsivörslukerfið hins vegar. Þess má geta að sömu atvik og til rannsóknar hafa verið við skattrannsókn kunna að koma til endurtekinnar rannsóknar hjá héraðssaksóknara í öðru samhengi. Á það t.d. við þegar peningaþvætti er talið hafa átt sér stað samhliða skattalagabrotum. Rannsókn peningaþvættismála heyrir alfarið undir héraðssaksóknara. Í Svíþjóð er komið í veg fyrir slíkan tvíverknað með því að veita skattyfirvöldum heimild til rannsóknar peningaþvættis. Líta ætti til Svíþjóðar hvað þetta varðar.

Í meira en aldarfjórðung hefur reglulega verið vakin athygli á nauðsyn þess að uppræta augljósan tvíverknað í rannsókn á skattsvikum og efnahagsbrotum og útgáfu ákæra á því sviði, jafnt í þingmálum sem og mörgum skýrslum og greiningum. Fyrirkomulagið hér á landi er seinvirkt og það er kostnaðarsamt og hvorki hinu opinbera né sakborningum í hag. Með löngum málsmeðferðartíma vex auk þess hættan á að réttarspjöll verði sem leiðir til mildari dóma en ella eða jafnvel sýknu eins og dæmi eru um. En í stað þess að sameina embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra væri mun árangursríkara og skilvirkara í alvarlegum skattalagabrotum að efla skattrannsóknir og veita skattrannsóknarstjóra ákæruvald í þeim málum sem embættið rannsakar. Þannig mætti koma í veg fyrir tvíverknað, stuðla að styttri málsmeðferðartíma og skapa um leið betri samfellu í rannsókn alvarlegra skattalagabrota. Sakamál vegna skattalagabrota krefjast sérþekkingar og sérhæfingar, bæði hvað varðar rannsóknir og saksókn. Það stuðlar að skilvirkni að einn og sami aðilinn annist hvort tveggja. Slík tilhögun er þekkt í öðrum löndum og þar á meðal í Þýskalandi. Ógjörningur er að koma auga á hvernig hagur almennings er varinn með því að draga tennurnar úr skattrannsóknum hér á landi. Til hvers, forseti? Hver er það sem græðir á þessu ráðslagi?

Síðar í dag mun ég mæla fyrir frumvarpi mínu um að veita skattrannsóknarstjóra ákæruvald. Það mál hefur legið hér í þinginu og ekki komist á dagskrá. Ég mun mæla fyrir því vegna þess að ekki er búið að greiða atkvæði um það mál sem við ræðum hér til að það standi skýrt í þingtíðindum og komi mögulega til umræðu hér á Alþingi, annars vegar það að leggja niður embættið og hins vegar, það sem við í Samfylkingunni viljum gera, efla embættið.