151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

viðmið um nýgengi smita.

[13:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þingmaður telur að ég misskilji eitthvað en ég hygg að því sé öfugt farið. Ég hygg að hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á því að þetta viðmið, 1.000 smit, gildir fyrir landið allt, viðkomandi land, jafnvel þótt það séu einungis einstök svæði innan landsins þar sem smittalan er sú sem vísað er til. Þetta er reglan sem til stendur að miða við og hún leiðir það af sér að það eru, samkvæmt nýjustu upplýsingum, fjögur lönd sem falla innan þessara viðmiða. En það getur auðvitað breyst yfir tíma. Hugmyndin er, samkvæmt tillögunni sem fram hefur komið, að uppfæra viðmiðunartölur í þessu efni vikulega hér innan lands þar sem horft verði til þess hvernig þróunin er annars staðar. Það er algjört lykilatriði í þessum nýju tillögum að við erum að herða á landamærum til að fá skjól fyrir bólusetningar og í kjölfarið afléttingar innan lands.