151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[15:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi varðandi litakóðunarkerfi Evrópu annars vegar og hins vegar innlent mat á áhættu þá er litakóðunarkerfið þannig sett saman að það byggir á gögnum sem safnað er saman yfir tíma. Það er viðleitni til að halda gögnunum eins mikið í samræmi við daginn og hægt er. Að bæta síðan við mati innan lands snýst í raun um að byggja á þeim gögnum og upplýsingum sem við viðum að okkur á landamærum jafnharðan, þ.e. um smit, um útbreiðslu þeirra, um það hvaðan þau koma o.s.frv., þannig að við erum í raun og veru að segja að okkar mat sé betra, að það sé sterkara þegar við bætum þessum innlendu gögnum við.

Bólusettir verða eftir sem áður að fara í eitt próf eins og þeir hafa gert hingað til, og það var að koma frétt frá ráðuneyti mínu núna í dag um að það hefði gefist vel, þ.e. að í öllum tilvikum hefði fólk sem kemur með bólusetningarvottorð á landamærin greinst án smits við eitt próf.