151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög og útlendingar .

747. mál
[17:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma stuttlega inn á þetta frumvarp um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga sem hér liggur fyrir. Ég verð í þetta skiptið fulltrúi míns flokks í hv. velferðarnefnd í forföllum hv. þingmanns Miðflokksins, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur. Það er auðvitað margt búið að koma fram í umræðunni í dag en það er atriði sem mig langar að koma inn á og snýr að verklaginu við þessa lagasetningu og hraðanum og flumbruganginum. Þetta mál er auðvitað ekki að falla af himnum ofan núna með engum fyrirvara. Það virðast vera viðbrögð við einhverjum óvæntum atburði eins og frumvarpi stjórnarandstöðuflokks sem orsaka það að hér þarf að keyra þetta frumvarp í gegn á einum degi. Ef við gefum okkur nú að þetta séu viðbrögð við dómi þar sem þvinguð dvöl í sóttvarnahúsi var dæmd ólögmæt hinn 5. apríl þá er nú dágóður tími búinn að vera til ráðstöfunar frá því þá. Það liggur fyrir að okkur þingmönnum verður auðvitað fyrst og fremst kennt um ef illa tekst til við þessa lagasetningu. Ég vil bara segja á almennum nótum að miðað við stöðuna í samfélaginu, smit og þar fram eftir götunum, held ég að skynsamlegt væri að þingið gæfi sér örlítið meiri tíma en áætlað er miðað við uppleggið hér í dag, þó ekki væri nema tveir, þrír, fjórir dagar. Ég trúi því ekki að það valdi vandræðum í baráttunni við veiruna. Ef við verðum gerð afturreka með þetta mál eins og raunin varð hinn 5. apríl þá verður það ekki til neins sóma fyrir þingið í þessu verkefni öllu.

Í samhengi við málshraðann núna þykir mér skipta máli að spurt sé þessarar spurningar: Hefðu þær reglur sem hér eru til umfjöllunar verið í gildi, hefði það haft áhrif á þann aukna fjölda smita sem kom tímabundið fram um liðna helgi? Svona fljótt á litið sýnist mér svo ekki vera. Þeir sem betur þekkja til hafa svarað mér á þeim nótum að svo væri að líkindum ekki. Bara í því samhengi held ég að það væri skynsamlegt að þingið gæfi sér örlítið meiri tíma. Þá er ég ekki að segja það til að leggjast gegn lagfæringum á sóttvarnalögum en þingið í heild hefur komið sér í vandræði áður í þessu verkefni öllu með flumbrugangi og ég held að við ættum að forðast það. Fyrir nokkrum vikum kom beiðni um að breytingu á loftferðalögum yrði hraðað í gegnum umhverfis- og samgöngunefnd í tengslum við Covid-viðbrögð og ætlunin var að það kláraðist á örskotsstundu. Málið hefur ekki enn verið afgreitt núna nokkrum vikum síðar og mér vitanlega er ekki talið að það hafi haft nein teljandi áhrif í baráttunni við Covid.

Frumvarpið sýnist mér jafnframt vera þannig sett fram og þær reglugerðir sem er búið að leggja fram til kynningar, sem munu byggja á þessum breyttu lögum, að það er eiginlega sama hvort fólk er þeirrar skoðunar að skella algerlega í lás á landamærunum eða hvort það eigi að fara hina leiðin og opna og liðka til, frumvarpið fær á köflum tiltölulega slæma útreið, kannski í og með vegna þess hversu upplýsingaóreiðan var mikil í kynningu málsins, í aðdraganda þess á fundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í gær. Þar virtist sett einhvers lags héraðsmet í upplýsingaóreiðu, því miður, enn einu sinni í þessum efnum.

Ég vil jafnframt halda því til haga hver afdrif litakóðunarkerfisins verða. Er þetta mánaðarfrestun á innleiðingu þeirrar ákvörðunar sem áður hafði verið tilkynnt hvað notkun litakóðunarkerfisins varðar eða er um að ræða meiri breytingu á þeirri afstöðu að notast við það? Ég hef skilið stjórnvöld þannig að ætlunin sé að notast við það kerfi þó að skilaboðin frá sóttvarnalækni hafi á köflum bent til annars.

Ég vil sömuleiðis nefna núna þegar við erum að fjalla um breytingar á sóttvarnalögum að mér finnst að við verðum enn einu sinni að gera atlögu að því að draga fram sjónarmið um það hvert sé markmiðið. Ef markmiðið er veirulaust samfélag, sem mér heyrist á öllu að enginn sem einhverja ábyrgð ber telji raunhæft, en ef það er nýjasta markmiðið þá er fyrir bestu að það liggi fyrir, ekki að menn fari með hálfkveðnar vísur. Það eru margir mánuðir síðan sóttvarnalæknir talaði á þeim nótum á upplýsingafundi að við yrðum með einum eða öðrum hætti að læra að lifa með veirunni. Það að ætla sér að ná fram veirufríu samfélagi kallar á aðgerðir sem eru ekki útgjaldalausar hvað aðra þætti samfélagsins varðar. Þá horfir maður bara á efnahagslífið, andlega og líkamlega heilsu og fleiri þætti.

Ég held að við verðum jafnframt að spyrja okkur þeirrar spurningar, af því að hér er í báðum tilvikum, í báðum greinum þessa frumvarps, um bráðabirgðaákvæði að ræða sem tekur til tímabilsins 22. apríl til 30. júní 2021: Og hvað svo? Hvað gerist þann 30. júní? Ef staðan verður sú að það verða töluverð smit í samfélaginu verður þá gripið til einhverra drastískra ákvarðana eða aðgerða? Mér heyrist á umræðunni í dag benda til að svo sé. Í gær var ríkisstjórnin í öllu falli tiltölulega brött hvað þá afstöðu varðaði að öllum takmörkunum yrði aflétt innan lands 1. júlí, ef ég greip dagsetninguna rétt, en ég held engu að síður að í meðförum nefndarinnar þurfi að eiga sér stað samtal sem verður að vera á þeim nótum að spurt er: Og hvað svo þegar þessi tími er liðinn? En ég bara ítreka að ég er fylgjandi því og styð það að hér sé um bráðabirgðaákvæði að ræða þar sem tíminn er frekar skammtaður knappt en til lengri tíma. Jafnframt vil ég benda á að það er auðvitað lítið mál að hnika til dagsetningu þessara bráðabirgðaákvæða aftur um nokkra daga ef þingið telur það verða til þess að frumvarpið verði betur ígrundað og til meira gagns en núna liggur fyrir.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég fæ að taka þátt í störfum velferðarnefndar sem hefjast væntanlega að þessari umræðu lokinni og vona að sú vinna verði til gagns.