151. löggjafarþing — 82. fundur,  21. apr. 2021.

sóttvarnalög.

743. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, um sóttvarnarhús. Flutningsmenn eru allur þingflokkur Samfylkingarinnar. Við leggjum til eftirfarandi breytingar:

Í 1. gr. er lagt til að 13. tölul. 3. mgr. 1. gr. laganna orðist svo: Sóttvarnahús: Staður á vegum hins opinbera þar sem einstaklingur getur verið í sóttkví eða einangrun.

Í 2. gr. leggjum við til að eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:

a. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Dvelji í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda.

b. Á eftir orðinu „einangrun“ í 4. mgr. kemur: dvöl í sóttvarnahúsi.

Að lokum er lagt til í 3. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi.

Ef við skoðum þetta í samhengi við frumvarpið sem rætt var áðan er hér mál sem er til þess fallið að gefa rýmri heimildir, auka skýrleika og skapa jafnframt meiri fyrirsjáanleika.

Þetta frumvarp kom fram áður en stjórnarfrumvarpið, sem rætt var um áður, og má eiginlega segja að það hafi ýtt við ríkisstjórninni að bregðast við. Í þrjár vikur hefur hún í rauninni ekki gert neitt til að bregðast við dómi héraðsdóms. En það má segja að þetta hafi stuggað við þeim. Þau boðuðu til fundar í Hörpu sem var að mörgu leyti mjög ruglingslegur en fæddi af sér það frumvarp sem verður rætt í velferðarnefnd samhliða þessu.

Ég held að það sé alveg augljóst að heimsfaraldur kórónuveiru hefur opnað augu heimsbyggðarinnar fyrir mikilvægi þess að sóttvarnayfirvöld og yfirvöld geti brugðist hratt við með aðgerðum þegar heilsu okkar er ógnað. Gildandi sóttvarnalög eru frá 1997. Þeim var reyndar síðast breytt í febrúar síðastliðnum. Við þá breytingu var rætt um mikilvægi þess að lögin tækju heildarendurskoðun en þó ekki fyrr en að yfirstandandi heimsfaraldri loknum. Í lok mars birti heilbrigðisráðherra reglugerð sem kvað á um skyldu ferðamanna frá skilgreindum áhættusvæðum til dvalar í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Í umræðu um það bar nokkuð á ábendingum um að lagastoð skorti fyrir slíku ákvæði í reglugerð. Það fór líka svo að nokkur tilvik létu reyna á heimildina fyrir dómi. Eins og áður sagði úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að lagastoð skorti fyrir umræddri skyldu og var reglugerð ráðherra í kjölfarið felld úr gildi. Síðan eru liðnar þrjár vikur.

Flutningsmenn frumvarpsins telja mikilvægt að sóttvarnayfirvöldum, eða ráðherra á grundvelli tillagna sóttvarnayfirvalda, verði veitt rúm heimild í lögum til að gefa út reglugerð er skyldar ferðamenn til sóttkvíar eða einangrunar í sóttvarnahúsi á vegum stjórnvalda ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í yfirvofandi hættu. Telja flutningsmenn að komið hafi í ljós að bregðast þurfi hratt við í hættuástandi. Þar sem sú lagaskylda hvílir á stjórnvöldum að gæta í hvívetna meðalhófs við ákvarðanatöku þykir flutningsmönnum einsýnt að ekki komi til þess að ákvæðinu verði beitt án ríkrar ástæðu.

Ég legg því til að málinu verði vísað til velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu en vil þó jafnframt segja nokkur orð. Við höfum í baráttunni við veiruna reitt okkur á okkar helstu sérfræðinga, þetta góða þríeyki og auðvitað starfsfólk heilbrigðiskerfisins. Það hefur unnið algjört kraftaverk á síðustu mánuðum. En þegar okkur þykir sundrung ríkisstjórnarinnar vera farin að koma niður á aðgerðum í þágu sóttvarna verðum við að stíga fram og leiða það fram sem sóttvarnayfirvöld og almenningur í landinu kallar eftir, og það er frumvarp af þessum toga sem gefur rýmri heimildir.

Hlutverk okkar í stjórnmálunum er býsna mikilvægt á þessum tímum. Það er undir okkur komið að draga úr áhrifum veirunnar og koma í veg fyrir óþarfa þjáningu fólks. Það er undir okkur komið að tryggja þrátt fyrir allt að það fólk sem býr hér og starfar, ekki síst börn, unglingar og veikt fólk, geti notið frelsis og að ýmsar starfsgreinar, sem ættu að geta haft tekjur og viðurværi af vinnu sinni, geti það. Þar má nefna listafólk, sem hefur í rauninni verið algerlega lamað í þessum aðgerðum. Einnig get ég nefnt ferðaþjónustu, veitingarekstur, heilar starfsstéttir, sem gætu, með því að við sinntum mjög ströngu eftirliti og aðgerðum á landamærum, lifað lífi sínu miklu líkar því sem hægt væri í venjulegu árferði. Það hillir undir sumar og ég er ekki jafn bjartsýnn og ríkisstjórnin á að hægt sé að dagsetja hvenær öllum takmörkunum verður aflétt. Fyrirsjáanleikinn er bara ekki nægur til þess að við getum fest niður dagsetningu. Ég vona svo sannarlega að það standist. En í augnablikinu verðum við að taka stöðuna föstum tökum og tryggja almenningi innan lands eins mikið frelsi og mögulegt er næstu mánuði.