151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

málefni atvinnulausra.

[13:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hefjum störf, umfangsmiklar vinnumarkaðsaðgerðir fyrir atvinnuleitendur og atvinnulífið, var fyrirsögn sem ríkisstjórnin sendi frá sér. Þar var boðið upp á 7.000 tímabundin störf og áætlað að kostnaðurinn yrði 4,5–5 milljarðar króna. Þetta á að vera fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem verið hafa án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi. Hverjum starfsmanni fylgir 472.000 kr. stuðningur á mánuði og 11% framlag í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er sex mánuðir, frá apríl til desember 2021.

Síðan koma skilyrðin og þau eru að ráðnir séu einstaklingar sem eiga sex mánuði eða minna eftir bótarétti. En ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað hefur Vinnumálastofnun neitað mörgum sem eru á félagslegum bótum sveitarfélaga um að fá vinnu með stuðningi upp á 472.000 kr. á mánuði og 11,5% framlag til lífeyrissjóðs? Þeir sem eru á félagslegum bótum eru þeir sem hafa það verst. Hvers vegna í ósköpunum er verið að neita þeim um þennan rétt? Í því samhengi spyr ég líka: Hvað hefur mörgum verið hafnað af annarri ástæðu, t.d. að ná ekki alveg sex mánuðum? Og er ekki kominn tími til að námsmenn fái rétt sinn til atvinnuleysisbóta í samræmi við vinnurétt sinn?