151. löggjafarþing — 85. fundur,  26. apr. 2021.

aukið samstarf Grænlands og Íslands.

751. mál
[18:23]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum hér með í höndunum ansi merkilega þingsályktunartillögu sem er afrakstur merkilegrar vinnu svokallaðrar Grænlandsnefndar sem hafði umsjón með því að kortleggja samstarf Grænlands og Íslands og kortleggja þau tækifæri sem væru í auknu samstarfi landanna á milli. Eins og segir í bréfi sem fylgdi þessari merku og góðu og stóru og þykku skýrslu frá hæstv. utanríkisráðherra er um að ræða umfangsmestu greiningu sem gerð hefur verið á vegum utanríkisráðuneytisins á samskiptum landanna tveggja. Ég ætla að nota tækifærið til þess að þakka höfundum skýrslunnar, fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi forseta Alþingis, Unni Brá Konráðsdóttur, og sömuleiðis Óttari Guðlaugssyni fyrir þeirra vinnu og öllu því starfsfólki sem kom að vinnu við skýrsluna.

Í þessari þingsályktunartillögu er um að ræða forgangsröðun Grænlandsnefndarinnar á tíu tillögum til stefnumörkunar varðandi framtíð samstarfsins og sömuleiðis, eins og nefndin leggur til, að Grænland og Ísland geri með sér rammasamning um samstarf í framtíðinni. Það er gott og það er vel að hér sé verið að kortleggja samstarf þessara tveggja ríkja í framtíðinni og þótt fyrr hefði verið, í ljósi allra þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað á norðurslóðum í tengslum við hraðari loftslagsbreytingar sem hafa áhrif á öll svið, hvort sem um er að ræða fiskveiðar eða samfélagsleg mál og breytingar á byggðamálum o.s.frv. Þetta er því mjög kærkomið tækifæri til að kortleggja samstarf þessara tveggja landa.

Hins vegar verð ég að nefna að þessar tíu tillögur til stefnumörkunar eru flestar, ef ég leyfi mér að orða það svo, herra forseti, nokkuð mjúkar tillögur. Það er tillaga um frístundaheimili í Tasiilaq, falleg tillaga um stuðning við berskjaldaða með stuðningi grænlenska Rauða krossins og samstarfi við Rauða krossinn og það er gerð tillaga um að samsstarfssamningur landanna á heilbrigðissviði verði uppfærður. En það sem er að mínu viti kannski merkilegast í þessum tillögum til stefnumörkunar er tvíhliða viðskiptasamningur milli landanna tveggja, nýr alhliða fiskveiðisamningur og sömuleiðis samstarf á milli Íslands og Grænlands um smávirkjanir á Austur-Grænlandi sem miðar að því að skipta út olíu sem orkugjafa við húshitun og rafmagnsframleiðslu. Í þeirri tillögu er lagt til að Austur-Grænland verði tekið inn í smávirkjanaáætlun Orkustofnunar. Þetta eru kannski að mínu viti, herra forseti, þær tillögur sem eru stærstar og umfangsmestar og snerta alþjóðlegt samstarf með skýrari hætti heldur en hinar, þó að hinar tillögurnar séu að sjálfsögðu góðar og þær eru, eins og hv. þingmaður hér á undan mér, Guðjón Brjánsson, nefndi, líka í takt við það menningarlega og félagslega samstarf sem átt hefur sér stað á vettvangi Vestnorræna ráðsins.

Skýrslan er ansi viðamikil og góð en líka forvitnileg. Þar er til að mynda fjallað nokkuð um samskipti Kína og Grænlands og það er áhugavert og væri kannski efni í aðra umræðu og aðra fyrirspurn um það hvernig það samrýmist áherslum okkar þegar kemur að samskiptum við Kína, hvernig Grænland hefur undanfarin ár leitast eftir nánu og góðu samstarfi við Kína, sem m.a. hefur birst í heimsóknum grænlenskra ráðamanna til Kína og mikilli samvinnu á milli þeirra ríkja. Það verður væntanlega rætt áfram í sölum, þ.e. samstarf landanna beggja við Kína.

Ég minntist áðan á það í minni fyrri ræðu að það er gríðarlega mikið og mikilvægt starf sem unnið er af hálfu íslenskra fræðimanna, bæði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, við öll þau rannsóknasetur sem starfrækt eru hér á landi um norðurslóðir og það er gott og það er vel að við séum að ræða þessi mál hér, annars vegar tillögu til þingsályktunar um stefnumótun varðandi norðurslóðir og sömuleiðis þessa þingsályktunartillögu um aukið samstarf Grænlands og Íslands.

Loftslagsbreytingarnar eru náttúrlega stóra málið og stóra viðfangsefnið okkar hér á komandi árum og áratugum. Það skiptir mjög miklu máli að Ísland komi fram með skýrum og styrkum hætti í því að efla og styrkja samstarf okkar nánustu nágranna og við sem ríki séum partur af samtali vonandi og samvinnu ríkjanna sem eiga aðild að norðurslóðunum þegar kemur að öryggis- og varnarmálum, þegar kemur að siglingaleiðum og nýtingu auðlinda og að sjálfsögðu þegar kemur að loftslagsbreytingum. Eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á þegar ég spurði hann um áherslubreytingar nýrrar Bandaríkjastjórnar þá er um leið ljóst að ný Bandaríkjastjórn leggur ofuráherslu á loftslagsmálin og hefur gert þau að meginþræði í þjóðaröryggisstefnu sinni. Þá er lag fyrir okkur á Íslandi að styrkja bönd okkar og samvinnu við Bandaríkin einmitt í því markmiði að gera okkur gildandi á norðurslóðum og eiga gott samstarf þegar kemur að áhrifum loftslagsbreytinga.

Það hefði verið gaman að sjá hér jafn digra og þykka og góða og vandaða skýrslu þegar kemur að EES-samningnum eða samstarfi við Evrópuríkin. En ég bíð og vona að við sjáum þess konar doðrant frá hæstv. utanríkisráðherra um Evrópumálin. Það er gríðarlega gott fyrir okkur að kortleggja þessi samskipti okkar í breyttum heimi og ekki síst þegar breytingarnar eru jafn hraðar og raun ber vitni. Ég vil hvetja ráðherra og ríkisstjórnina til dáða við að efla og auka samstarf landanna tveggja í norðurslóðamálunum en ekki síður að eiga líka gott og þétt samstarf við önnur ríki, eins og ég minntist á hér í fyrirspurn minni, þegar kemur að öðrum Evrópuríkjum og sömuleiðis Bandaríkin. Ég minni á þá hugmynd mína, sem gæti verið grunnur að þingsályktunartillögu, um einhvers konar loftslagssamning milli Bandaríkjanna og Íslands sem myndi þá í leiðinni snerta á samskiptum okkar við okkar góðu granna í vestri, á Grænlandi.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég vil bara tiltaka þessar þrjár tillögur af þeim tíu sem mér þykja vera áhugaverðastar vegna þess að þær snerta kannski meira þá alþjóðapólitík sem undir er. Það væri lag að heyra frá hæstv. utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hvernig hann sér fyrir sér þær þrjár tillögur í komandi samvinnu og samstarfi við bæði Grænland og önnur ríki. En um leið og við klárum þessa umræðu hér þá vil ég ítreka þakkir til allra þeirra sem komu að þessari mikilvægu vinnu við skýrslu Grænlandsnefndarinnar um samstarf Grænlands og Íslands á nýju norðurslóðum og fyrir það ber að þakka.