151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Síðastliðinn fimmtudag samþykkti þing Evrópuráðsins yfirlýsingu þar sem m.a. er biðlað til tyrkneskra stjórnvalda að virða mannréttindi þar í landi, láta af tilraunum til að leysa upp næststærsta stjórnarandstöðuflokkinn, HDP, svipta þriðjung þingmanna þinghelgi og múlbinda þarlenda fjölmiðla. Þar eru yfirvöldin jafnframt gagnrýnd fyrir að segja sig frá Istanbúl-sáttmálanum án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu eða gagnrýni þar í landi. Ég ásamt öllum flokkahópi evrópskra vinstri sinna á Evrópuráðsþinginu og yfirgnæfandi meiri hluta þingsins samþykkti ályktunina. Það er mikilvægt að alþjóðastofnanir eins og Evrópuráðið standi vörð um mannréttindi og veiti engan afslátt í þeim efnum. Það er alltaf alvarlegt þegar yfirvöld reyna að takmarka skoðanafrelsi eða ganga á rétt lýðræðislega kjörinna þingmanna til að sinna hlutverki sínu líkt og virðist raunin í Tyrklandi nú og nýleg dæmi frá Katalóníu hafa sýnt. Íslensk stjórnvöld eiga að láta málið til sín taka og taka málið upp við tyrknesk stjórnvöld og ég teldi ekki óeðlilegt að málið væri rætt í utanríkismálanefnd þingsins. Íslendingar hafa sýnt það, m.a. í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, að lítil þjóð getur látið til sín taka svo eftir sé tekið á alþjóðavettvangi.