151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er vert að vekja athygli á tvennu. Annars vegar að síðustu tvær setningarnar í skýrslubeiðninni sem Alþingi samþykkti voru, með leyfi forseta:

„Að mati skýrslubeiðenda fer best á því að skýrsla um ofangreinda þætti verði unnin af óháðum aðila. Æskilegt er að samráð verði haft við þingflokka um þann óháða aðila sem fenginn verður til starfans.“

Þetta er lykilatriði þess sem við erum að benda á hér í dag. Hins vegar, þrátt fyrir að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, 1. varaformaður velferðarnefndar og þingmaður Vinstri grænna úr þingflokki hæstv. heilbrigðisráðherra, segist hafa vitneskju um það, einn og sér, að vinna við umrædda skýrslu sé hafin, þá hefur ekkert til hennar spurst. Enginn úr þingflokkunum hefur fengið neina meldingu um að þessi vinna sé hafin. Ekkert samráð er haft hér innan húss varðandi það hvaða óháðu aðilar eiga að vinna þessa skýrslu. Þetta er ekki skoðun á einhverri stofnun úti í bæ til framtíðar. Þetta er skoðun á ástandi (Forseti hringir.) sem ríkir núna, þar sem læknar og skjólstæðingar fá ekki upplýsingar. (Forseti hringir.) Það er það sem er grafalvarlegt af því að þetta varðar heilsu kvenna í dag, ekki í framtíðinni.