151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er búinn að reyna að hlusta á þessar ræður undanfarinn sólarhring og rúmlega það. Ég hef ekki alveg áttað mig á því hvað Miðflokkurinn hefur verið að biðja um. Miðað við þetta andsvar þá virðist hv. þingmaður vera að biðja um meira; meiri samræmingu og fleira starfsfólk til þess að sinna þessari samræmingu og þess háttar. Jú, það er gott og blessað. Ef það er það sem þarf til þess að ná góðum árangri þá þarf náttúrlega að gera það. Þá er alveg hægt að hafa áhyggjur af því hvað gerist eftir ár. Við þurfum þá örugglega að taka upplýsta ákvörðun um hvort þetta hafi gefið góða raun og ákveða um framhaldið. Það er bara eitthvað sem kemur fram í fjármálaáætlun og stefnu stjórnvalda, væntanlega, ef þetta gefur góða raun. Er það ekki staðallinn sem við viljum vinna eftir? Við betrumbætum það sem gefst vel eins og Fjölmenningarsetrið á Ísafirði, það hefur gefið góða raun. Hér er verið að taka lengra skref. Eigum við taka stærri skref í því og bæta við fleiri fulltrúum í þetta samræmingarrbatteríi sem er verið að tala um hérna? Er það það sem verið er að biðja um og búið er að tala um hérna í heilan sólarhring eða rúmlega það? Ég skildi það ekki alveg þannig af fyrri ræðum, það voru alla vega margar spurningar og kannski ekki alveg svona nákvæmlega orðaðar. Ef hv. þingmaður gæti útskýrt það betur væri það vel þegið. Er verið að biðja um meiri og samræmdari móttöku flóttamanna eða er það eitthvað annað?