151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

706. mál
[14:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir mikilvægi þessa máls, að það fari áfram, ekki síst í ljósi þess að við þurfum að senda út skýr skilaboð varðandi atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og það þarf að gera í samráði við heimamenn. Mér sýnist á öllu, eftir meðferð málsins í nefndinni, að svo sé. Það eru reyndar ótal tækifæri til uppbyggingar, ekki síst þegar ferðaþjónustan fer af stað aftur. Við þurfum að á henni að halda til að auka hagvöxt og verðmætasköpun. Ég vildi líka koma hingað upp — það er kannski ótengt þessu, en það eru ákveðin hugrenningartengsl — varðandi uppbyggingu á varnarmannvirkjum, m.a. í tengslum við hugmyndir um uppbyggingu mannvirkja sem tengjast vörnum Íslands, höfninni í Helguvík og mannvirkjum víðar á Suðurnesjunum. Það skiptir máli að við höfum heildstæða mynd um framvindu þess skipulags og þeirra áforma sem þar eru.

Reglan er sú að áform og ákvarðanir um uppbyggingu varnarmannvirkja eru í raun alfarið á hendi framkvæmdarvaldsins. Ég er eindregin talskona þess að við séum fullir þátttakendur í varnarsamstarfinu eins og við höfum verið allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins 30. mars 1949. Við eigum sæti við borðið, við erum með rödd og þegar við ræðum það sem snertir okkar heimahaga er rödd okkar sterk. Við vorum hér áðan að ræða mikilvægi þingsins, bæði eftirlitshlutverk og aðkomu þingsins í mörgum málum, að fá svör við mikilvægum spurningum o.s.frv. Ég segi þetta m.a. í tengslum við þær hugmyndir sem hafa komið frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé um að ákvarðanir um meiri háttar varnaruppbyggingu eigi að koma til umfjöllunar og afgreiðslu þingsins. Ég tel það þátt sem við eigum að taka til skoðunar og ræða í ljósi þess að gríðarleg þróun hefur átt sér stað í ákvarðanaferli, þátttökuferli. Ég tel mikilvægt að ýta undir gegnsæi sem aldrei fyrr þegar kemur að ákvarðanatöku í slíkum málum, upplýsingum, ekki síst við löggjafarvaldið. Að mínu mati dugar ekki eitt og sér að utanríkisráðherra eigi samtal og samráð við utanríkismálanefnd þingsins þegar um slíkar meiri háttar ákvarðanir er að ræða. Ég vildi bara leggja þetta inn í þetta samhengi. Um leið og ég undirstrika mikilvægi þess að við höldum áfram að vera virkir þátttakendur í vestrænu varnarsamstarfi tel ég engu að síður mikilvægt að við endurskoðum þá ferla sem við höfum hér innan veggja þingsins í þá veru hvernig hægt er að gera ákvarðanaferlið þannig að fleiri komi að en bara framkvæmdarvaldið, að kjörnir fulltrúar komi að ákvarðanatöku þegar um meiri háttar ákvarðanir er að ræða.

Þetta er mitt innlegg inn í þetta hvað málið sjálft varðar og þá munum við í Viðreisn greiða fyrir því. Það er gott að sjá að við erum að breyta umgjörðinni varðandi umskiptin í tengslum við Kadeco, hvernig við ætlum að byggja upp á gamla varnarsvæðinu og ég tel það skref sem hér um ræðir vera rétt og skynsamlegt um leið og ég vona að það fjölgi þeim tækifærum sem eru fyrirsjáanleg í næstu framtíð á Suðurnesjum. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa um leið og ég vil koma því á framfæri að ég held að við eigum að hugsa í stærri myndinni, hvernig við tökum á ákvörðunum um frekari varnaruppbyggingu hér á Íslandi.