151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég ætlaði bara að nota tækifærið úr því að þetta mál kemur hingað til umræðu af hálfu hv. framsögumanns og segja nokkur orð. Álitið er vel unnið og ítarlegt og farið yfir þetta eins og hv. þingmaður á vana til. Ég neita því ekki að það eru ákveðin vonbrigði að ekki skuli aftur hafa verið farið ofan í hækkun á hámarkshraða í vistgötum, þ.e. þá ákvörðun að fara úr 10 km hraða og leyfa 15 km hraða. Við ræddum þetta töluvert í nefndinni og það kom til umræðu hver gönguhraði væri og hver hjólahraði væri o.s.frv. Stutta sagan er sú að við erum nokkur, býsna mörg, sem þykir þetta ansi glannalegt í vistgötum sem sannarlega eru ekki ætlaðar til aksturs; 15 km hraði leyfir býsna hraðan akstur þegar tekið er tillit til þess að þar er gangandi fólk og jafnvel börn að leik og annað slíkt.

Þegar verið var að tala um rökin með því að hækka, að það væri vegna sjálfkrafa sviptingar á ökuleyfum til þeirra sem færu yfir 20 km hraða, að það væri of íþyngjandi þannig, þá velti ég því fyrir mér hvort hv. framsögumaður hafi ekki viljað skoða það frekar að breyta refsirammanum ef þetta voru sterkustu rökin. Mig langar annars vegar að heyra hvort þetta er ekki eitthvað sem við hefðum mögulega getað náð lendingu í. Og síðan kannski því tengt, úr því ég hef tíma: Er það rétt skilið hjá mér að sveitarfélög geti, óháð því að þessi breyting fari í gegn, ákveðið lægri hraða innan sinna sveitarfélaga þegar um er að ræða vistgötur, þannig að þau hafi enn einhvern sjálfsákvörðunarrétt á þessum tilteknu vistgötum? Hvar liggur þekking hv. framsögumanns á því? Veit hann það eða hefur hann skoðað þau mál?