151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi hraða í götum er það umhverfið sem skiptir mestu máli. Það er fyrst og fremst umhverfið. Ef hraðakstur er vandamál einhvers staðar í vistgötu er lausnin ekki að breyta lögum sem fæstir eru að pæla í. Fræðsluefni um vistgötur síðustu tugi ára miðast við 15 km. Allt sem er til á prenti um vistgötur segir 15 km. Það er margt sem þarf að uppfæra og breyta og ég held að ef hraðakstur er að skapa hættu einhvers staðar þurfi bara að auka þar gróður eða setja upp þrengingar eða annað sem hægir á umferðinni frekar en að breyta hámarkshraðanum. Svo bara ítreka ég að þetta er hámarkshraði miðað við bestu mögulegu aðstæður. Ef það er eitthvað sem hindrar hraðakstur, börn að leik eða einhverjir á ferð sem hafa aukinn forgang í þessari vistgötu, þá eru fleiri reglur umferðarlaga farnar að tikka inn. Ég held því að þetta sé meira praktísk breyting sem við erum að gera hér en að það hafi einhver raunveruleg áhrif á umferðaröryggi og umferðarhraða í götunum.